Reimar á Vísi: Skemmtilegasta helgi ársins

Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs
Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs

Metþáttaka er á Pollamóti Þórs og Samskipa en yfir 800 keppendur eru mættir til leiks í 67 liðum. Þar ef eru 25 kvennalið sem er mikil fjölgun frá fyrri árum. Þetta og fleira skemmtilegt kemur fram í viðtali visis.is (visir.is) við Reimar Helgason, framkvæmdastjóra okkar Þórsara í dag.

Viðtalið í heild sinni má lesa hér neðar:

Metþátttaka er bæði á Pollamóti Þórs og Samskipa og N1 mótinu en samanlagt keppa vel á þriðja þúsund í knattspyrnu fyrir norðan um helgina. Akureyrarbær hefur gert ráðstafanir til að auka umferðaröryggi og fjölga bílastæðum til að rúma betur þann mikla fjölda sem sækir bæinn heim. Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs segir komandi helgi vera þá skemmtilegustu á árinu.

Það stendur mikið til á Akureyri um helgina en ungir knattspyrnuiðkendur á N1 mótinu sem og gamlar kempur á Pollamótinu spila af lífs og sálarkröftum fyrir norðan. Tvö þúsund þátttakendur eru skráðir til leiks á N1 mótinu sem er stærsta mótið til þessa. Sömu sögu er að segja af Pollamóti Samskipa og Þórs.

„Það er gaman að segja frá því að við erum með metþátttöku í ár. Við erum með 67 lið og 25 kvennalið sem er alveg sprengja og líka met. Þetta eru yfir 800 keppendur,“ segir Reimar.

Tuttugu ára aldurstakmark er á Pollamótinu.

„Þetta er sem sagt mót fyrir þá sem eru komnir af léttasta skeiðinu og hættir í keppnisbolta í efstu deildunum. Þeim er skipt í aldursflokka með átta ára millibili þannig að menn séu að keppa svona nokkuð á jafningjagrundvelli.“

Er ekki alveg pakkað í bænum?

„Jú, það er sko vægt til orða tekið að það sé pakkað. Að fara um bæinn núna er pínu eins og að keyra um í stórborg. En eins og ég segi, þá þekkja menn orðið mótin og stærðargráðuna og taka tillit til þess.“

Akureyrarbær hefur gert öryggisráðstafanir til að taka á móti fjöldanum.

„Það var mjög vel gert. Við funduðum um að reyna að forða því að fólk væri að fara inn í íbúðabyggð til að leggja svo þetta truflaði nú ekki þennan almenna íbúa meira en orðið er.“

Annað kvöld verður síðan 1200 manna Páls Óskars ball í Boganum.

„Sem er að verða árlegur viðburður; eitt stykki Pallaball á Pollamóti. Þetta er æðislega gaman og skemmtilegasta helgi ársins.“