Naumt tap hjá KA/Þór í spennuleik

KA/Þór er áfram í 5. sæti Olís-deildarinnar eftir eins marks tap gegn ÍBV í dag.

Eyjaliðið hafði frumkvæðið að mestu í fyrri hálfleiknum, náði forystu í upphafi og hélt henni að mestu út fyrri hálfleikinn. Þó var jafnt 5-5, en munurinn mestur fimm mörk í fyrri hálfleiknum og staðan 11-15 þegar haldið var til búningsklefa í leikhléinu.

KA/Þór náði að minnka muninn í upphafi seinni hálfleiks, og jöfnuðu þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum, 18-18. Liðin skiptust svo á að skora næstu mínúturnar, en KA/Þór komst í fyrsta skipti yfir í leiknum þegar um 12 mínútur voru eftir, 23-22. ÍBV jafnaði og jafnt á öllum tölum síðustu mínúturnar þar til ÍBV komst yfir á lokamínútunni, 27-28, og KA/Þór tókst ekki að jafna. Grátlegur endir á jöfnum og spennandi leik og bæði stigin fara til Eyja.

Lydia Gunnþórsdóttir var markahæst í liði KA/Þór með átta mörk, Nathalia Soares Baliana skoraði sex, Aþena Einvarðsdóttir og Hildur Lilja Jónsdóttir fjögur hvor, Júlía Björnsdóttir þrjú og þær Anna Þyrí Halldórsdóttir og Svala Björk Svavarsdóttir eitt hvor. Matea Lonac varði átta skot. Eins og áður hefur komið fram vantar tvo máttarstólpa í lið KA/Þórs, þær Unni Ómarsdóttur og Rut Arnfjörð Jónsdóttur, sem eru frá vegna meiðsla.

KA/Þór er áfram í 5. Sætinu með fjögur stig. Haukar hafa einnig fjögur stig eftir tap gegn Val í dag, en Selfyssingar komust upp að hlið KA/Þórs og Hauka með sigri á HK í dag. Fyrir neðan þessi lið er svo HK með tvö stig.

Leikskýrslan á vef HSÍ.
Gangur leiksins og tölfraæði - Hbstatz.is.

Næsti leikur hjá KA/Þór er laugardaginn 3. desember kl. 16, en þá mæta stelpurnar liði Hauka í Hafnarfirðinum. Gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið.