Lög Þórs

Lög Íþróttafélagsins Þórs (pdf) - síðast breytt á aðalfundi 2023

Í pdf-skjalinu eru upplýsingar um breytingar sem gerðar voru á aðalfundi 2023, sem og listi yfir þær greinar sem tekið hafa breytingum frá 2010. 

 

Lög Íþróttafélagsins Þórs

1. grein
Félagið heitir Íþróttafélagið Þór. Heimili þess og varnarþing er á Akureyri.

2. grein
Tilgangur félagsins er að gefa ungum sem öldnum tækifæri til íþróttaiðkana og félagsstarfa
og veita þeim fræðslu um gildi íþrótta og heilbrigðra lífshátta.

3. grein
Allir sem æfa íþróttir innan deilda félagsins gerast sjálfkrafa félagar í viðkomandi deild og
jafnframt félaginu. Aðrir sem vilja gerast félagar sæki um það á þar til gerðum eyðublöðum
og þurfa þeir að hljóta samþykki aðalstjórnar. Við greiðslu árgjalds öðlast viðkomandi fulla
félagsaðild í Þór.

4. grein

 • A) Heiðursfélaga getur stjórn félagsins kosið, þann mann eða konu sem hún telur að hafi
  unnið félaginu eða íþróttahreyfingunni sérstaklega vel. Heiðursfélagi skal kosinn með
  samhljóða atkvæðum allra stjórnarmanna. Heiðursfélagar eru gjaldfrjálsir gagnvart félaginu
  en njóta fullra félagsréttinda.
 • B) Heiðursformann getur stjórn félagsins kosið á sama hátt og heiðursfélaga.
  Heiðursformaður Þórs hefur rétt til að sitja stjórnar- og nefndafundi og hefur þar málfrelsi
  og tillögurétt. Þá er stjórninni heimilt að veita sérstök heiðursmerki, merki félagsins í gulli,
  silfri eða bronsi til þeirra einstaklinga sem stjórnin telur að unnið hafi félaginu sérstaklega
  vel.

5. grein
Stjórn félagsins skal samþykkja eða hafna stofnun nýrra deilda og leita staðfestingar á
ákvörðun sinni á félagsfundi sem skal boðaður innan tveggja vikna frá ákvörðun með
sama fyrirvara og aðalfundur. Afmarka skal hvaða íþróttagreinar falla innan hverrar deildar.

6. grein
Hver deild skal hafa minnst þriggja manna stjórn: Formann, ritara og gjaldkera. Auk þess
er heimilt er að kjósa meðstjórnendur. Skal aðalfundur hverrar deildar taka ákvörðun þar
um.

7. grein

 • A) Aðalfundi deilda skal halda áður en aðalfund félagsins. Aðalfundur deildar telst
  lögmætur sé hann auglýstur opinberlega með minnst sjö daga fyrirvara.
 • B) Stjórnir deilda skulu senda aðalstjórn dagskrá aðalfunda ásamt starfsskýrslu.
 • C) Dagskrá aðalfundar deilda skal vera þannig:
  1. Skipaður fundarstjóri og fundarritari.
  2. Skýrsla formanns.
  3. Skýrsla gjaldkera, ársreikningur lagður fram.
  4. Starfsemi unglingaráðs.
  5. Kosningar.
  6. Önnur mál.
 • D) Stjórnir deilda skulu um miðjan nóvember ár hvert skila til aðalstjórnar fjárhagsáætlun fyrir

komandi reikningsár.

8. grein
Rekstraráætlanir deilda skulu lagðar fyrir aðalstjórn til umsagnar a.m.k. tveimur mánuðum
fyrir upphaf keppnistímabils viðkomandi deildar.

9. grein

 • A) Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31. desember. Aðalfundur skal haldinn fyrir 1.
  maí ár hvert og telst hann lögmætur sé hann auglýstur opinberlega með minnst sjö daga
  fyrirvara.
  Á aðalfundi skal formaður gefa greinargóða skýrslu um starfsemi félagsins á síðastliðnu
  ári. Einnig skal leggja fram ársreikning félagsins, yfirfarinn og áritaðan af
  endurskoðendum, til samþykktar. Áritaður ársreikningur skal liggja frammi á skrifstofu
  félagsins til skoðunar fyrir félagsmenn frá þeim tíma er auglýsing um aðalfund birtist.
 • B) Aðalstjórn félagsins er skipuð formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara, þremur
  meðstjórnendum og tveimur varamönnum. Formaður aðalstjórnar skal kosinn sérstaklega.
  Sé enginn kjörinna aðalstjórnarmanna á aldrinum 16 til 25 ára skal kjósa einn
  áheyrnarfulltrúa ungs fólks í aðalstjórn.
  Aðrir stjórnarmenn og varamenn skulu kosnir til tveggja ára þannig að þrír aðalmenn og
  einn varamaður eru kosnir hvert ár. Að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum á fyrsta
  fundi eftir aðalfund. Varamenn hafa ávallt rétt til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og
  tillögurétt og skulu því boðaðir á alla fundi aðalstjórnar.
  Að minnsta kosti tveimur vikum fyrir aðalfund skal stjórn félagsins skipa þriggja manna
  kjörnefnd, sem hefur það hlutverk að sjá til þess að a.m.k. einn frambjóðandi sé til hvers
  þeirra embætta sem kjósa skal í.
  Koma má með uppástungur um menn í þessi embætti og skal það gert með samþykki
  þeirra. Fara skal fram leynileg kosning liggi fyrir framboð eða uppástungur um fleiri en einn
  í formannssæti, fleiri en þrjá í stjórn eða fleiri en einn varamenn.
  Aðalstjórn tekur á daglegum rekstri félagsins og fundar eins oft og þurfa þykir.
  Framkvæmdastjóri félagsins skal sitja fundi aðalstjórnar. Formenn allra deilda félagsins
  hafa rétt til setu á fundum aðalstjórnar, að hluta eða öllu leyti, eftir því sem umfjöllunarefni
  hverju sinni gefa tilefni til. Þeir hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum aðalstjórnar. Heimilt er
  að annar úr stjórn deildar sitji fund aðalstjórnar ef formaður er forfallaður.
  Aðalstjórn skal jafnframt minnst einu sinni á ári funda með stjórn hverrar deildar um
  málefni og framtíð deildarinnar og skal tímasetning slíkra funda taka mið af starfsemi og
  verkefnum hverrar deildar fyrir sig.
  Atkvæðisrétt öðlast félagar við 16 ára aldur, hafi þeir greitt árgjald og séu skuldlausir við
  félagið.
 • C) Dagskrá aðalfundar Þórs skal vera þannig:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar félagsins um starfsemi þess síðastliðið starfsár.
3. Skýrsla gjaldkera, ársreikningur lagður fram tilsamþykktar.
4. Tillögur um lagabreytingar, sem löglega eru fram komnar.
5. Kosningar.
6. Ákvörðun árgjalds.
7. Kosning endurskoðanda.
8. Önnur mál.

10. grein
Stjórn félagsins er heimilt að ráða framkvæmdastjóra fyrir félagið ef efni og aðstæður leyfa.
Óheimilt er að sitjandi formaður eða aðrir stjórnarmenn gegni starfi framkvæmdastjóra.

11. grein

 • A) Aðalstjórn hefur æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda.
 • B) Formaður er málsvari félagsins ásamt stjórn, staðfestir fundargerðir ásamt ritara og
  gætir eigna félagsins og þeirra verðlaunagripa er það varðveitir.
 • C) Ritari færir gjörðabók stjórnar- og félagsfunda, annast bréfaskriftir og varðveitir bréf og
  skjöl félagsins.
 • D) Gjaldkeri ber ábyrgð á að bókhald tekna og gjalda sé í samræmi við gildandi lög og
  bókhaldsreglur. Enn fremur sér hann um eftirlit með því að rekstur félags og deilda sé í
  samræmi við samþykktar áætlanir.
 • E) Formanni, ritara og gjaldkera er heimilt að fela framkvæmdastjóra hluta starfa sinna,
  með samþykki stjórnar.
 • F) Aðalstjórn getur skipað menn í nefndir og ráð á vegum félagsins. Stjórn félagsins setur
  hverri nefnd eða ráði starfsreglur.

 

12. grein

 • A) Stjórnarfundir skulu haldnir svo oft sem stjórninni þykir nauðsyn bera til, þó ekki sjaldnar
  en einu sinni í mánuði. Stjórnarfundur er því aðeins ákvörðunarbær að meirihluti
  stjórnarmanna sæki fundinn. Mikilvægar ákvarðanir má þó ekki taka án þess að allir
  stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið, sé þess kostur. Afl atkvæða ræður úrslitum,
  nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum þessum eða lögmætum fyrirmælum. Stjórnin skal
  halda gerðabók um það sem tekið er fyrir á fundum hennar og skulu fundargerðir
  staðfestar með undirskrift þeirra er sátu fundinn.
 • B) Stjórn félagsins skal boða til félagsfundar þegar hún telur þess þörf eða þegar minnst
  20 félagsmenn, 16 ára og eldri sem eru ekki í vanskilum við félagið, krefjast þess skriflega
  með tilvísun í fundarefni. Þegar lögmæt krafa er fram komin skal stjórnin boða til fundar
  innan viku með viku fyrirvara.

 

13. grein
Engum félaga er heimilt að keppa með öðru félagi nema að fengnu leyfi viðkomandi
deildar.

14. grein
Upphæð árgjalds skal ákveðin á aðalfundi. Innheimta skal árgjald með rafrænum hætti,
jafnframt því að vekja athygli á því með auglýsingum í staðarmiðlum. Gjalddagi árgjalds
skal vera ákveðinn af stjórn en þó eigi síðar en 1. september og eindagi 30 dögum síðar.
Vextir skulu aldrei reiknaðir á árgjald.
Við greiðslu árgjalds öðlast/viðheldur félagsmaður fullri félagsaðild og hefur atkvæðisrétt á
næsta aðalfundi og öðrum félagsfundum fram til innheimtu næsta árgjalds. Nýir
félagsmenn hafa því aðeins atkvæðisrétt á aðalfundi að þeir hafi gengið í félagið og greitt
árgjaldið að minnsta kosti þremur dögum fyrir aðalfund.
Sé árgjald ógreitt á eindaga missir viðkomandi félagsréttindi sín. Sé árgjald eigi greitt einu
ári eftir eindaga skal viðkomandi strikaður út af félagatali Þórs. Æski viðkomandi að ganga
aftur í félagið skal hann greiða fyrra árgjald. Þá fyrst getur hann öðlast full félagsréttindi í
Þór að nýju.

15. grein
Vilji félagsmaður segja sig úr félaginu skal hann tilkynna það til stjórnar eða skrifstofu
félagsins og er þar með strikaður út af félagatali. Félagsmenn sem ekki greiða árgjaldið
eru áfram skráðir í félagið, án þess þó að teljast fullgildir félagar með atkvæðisrétt á
aðalfundi.

16. grein
Verði einhver félagi sekur um afbrot sem stjórnin telur félaginu eða íþróttahreyfingunni
til vanvirðingar, þá getur hún vikið honum úr félaginu eða gripið til annarra viðeigandi
ráðstafana.

17. grein
Merki félagsins skal vera á öllum búningum þess. Deildir geta sótt um undanþágu frá
þessu til aðalstjórnar. Aðalbúningur félagsins í boltaíþróttum er hvít skyrta með rauðu
hálsmáli og rauðum líningum á ermum, rauðar buxur og rauðir eða hvítir sokkar. Stjórnum
deilda er heimilt að sækja um til aðalstjórnar að búningur deildar sé í öðrum litum en
aðalbúningur félagsins.
Enginn má nota merki félagins án samþykkis aðalstjórnar Íþróttafélagsins Þórs.

18. grein
Hætti félagið störfum eða það lagt niður, ber að afhenda allar eigur þess, bækur og skjöl,
stjórn ÍBA til varðveislu (eða bæjarsjóðs Akureyrar hafi félagið hlotið framkvæmdastyrk frá
Akureyrarbæ).

19. grein
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og þurfa þá að minnsta kosti 2/3 hlutar
fundarmanna að vera breytingunum samþykkir. Frumvörp til lagabreytinga þarf að tilkynna
stjórn félagsins skemmst tveim vikum fyrir aðalfund og enn fremur þarf að geta þeirra í
aðalfundarboði. Lög þessi öðlast þegar gildi og með þeim eru úr gildi numin öll eldri lög
Íþróttafélagsins Þórs.