Enn kreppir að í keilunni - lokað vegn viðhalds á Skaganum

Íþróttahúsið við Vesturgötu á Akranesi þar sem keilarar úr Þór hafa æft og keppt undanfarin ár. Mynd…
Íþróttahúsið við Vesturgötu á Akranesi þar sem keilarar úr Þór hafa æft og keppt undanfarin ár. Myndin er af vef Akraneskaupstaðar.

Óvissa er um fyrstu heimaleiki Þórsliðanna í 1. og 3. deild Íslandsmótsins í keilu eftir að Íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi var lokað í liðinni viku vegna viðhalds og endurbóta.

Keiludeild Þórs og keppendur á hennar vegum eru mögulega sá íþróttahópur sem býr við verstu aðstöðu allra íþróttaliða á landinu. Keilusalnum á Akureyri var lokað árið 2017 og keilufólk innan Þórs hefur því ekki getað stundað íþróttina á heimaslóðum í sex ár.

Þau allra hörðustu létu það ekki stöðva sig heldur leituðu til Skagamanna, en næsti keilusalur við Akureyri er á Akranesi. Þar tóku heimamenn keilufólki frá Þór opnum örmum og hafa Þórsarar farið reglulega á Skagann til æfinga og fengið að spila sína heimaleiki undanfarin ár.

Þór teflir fram tveimur karlaliðum í Íslandsmótinu í liðakeppni, einu í 1. deild og einu í 3. deild. Þór á nefnilega lið í efstu deild í keilu þrátt fyrir þennan skort á aðstöðu, eina karlalið Þórs í efstu deild karla í liðaíþrótt.

  • Þór (1. deild) - Björgvin Helgi Valdimarsson, Ólafur Þór Hjaltalín, Birkir Örn Erlingsson, Steindór Máni Björnsson og Rúnar Ingi Grétarsson.
  • Þór-Víkingur (3. deild) - Höskuldur Stefánsson, Njáll Harðarson, Þorgeir Jónsson og Guðmundur Konráðsson.

Áfall á Akranesi

Hafi staðan ekki verið nógu slæm þá versnaði hún til muna í liðinni viku þegar Akraneskaupstaður tilkynnti um lokun íþróttahússins við Vesturgötu vegna ófullnægjandi loftgæða. Það þýðir að Þórsarar hafa misst heimavöllinn sinn og þurfa mögulega að leita annað til að spila heimaleiki sína í 1. deild karla.

Í tilkynningu á vef Akraneskaupstaðar 20. september kemur eftirfarandi fram: „Tekin hefur verið ákvörðun um að ráðast strax í endurbætur og loka íþróttasal og kjallara hússins frá og með fimmtudeginum 21. september.“

Að sögn Björgvins Helga Valdimarssonar, formanns keiludeildarinnar, er enn sem komið er óvissa um heimaleiki Þórsliðanna vegna þessarar lokunar á Skaganum.

Fyrstu heimaleikir 7. og 21. október

Íslandsmót, liðakeppni, er hafið. Samkvæmt dagskrá Keilusambandsins á lið Þórs í 3. deildinni - sem keppir undir heitinu Þór-Víkingur - tvo heimaleiki laugardaginn 7. október, þann fyrri einmitt gegn ÍA-W og þann seinni gegn ÍR-Krókum. Lið Þórs í 1. deildinni á tvo heimaleiki laugardaginn 21. október, gegn KFR-Stormsveitinni og KFR-Þresti. Óvissa er um hvort fresta þarf þessum leikjum eða ekki, eins og áður kom fram.