Körfuboltatímabil yngri flokka er hafið

Síðustu helgi hófst yngri flokka tímabilið í körfubolta 2023-2024. Þrír flokkar héldu suður og hér fyrir neðan er samantekt á gengi helgarinnar hjá 9., 11. og 12. flokki drengja

Tímabilið rúllaði af stað hjá 11.flokki karla með ferðalagi til Keflavíkur.

Gangur leiksins var frekar jafn til að byrja með en greinilegt var að smá rið væri í báðum liðum, Keflvíkingar voru þó mun fljótari að ná áttum og strax eftir fyrstu 2 leikhluta voru þeir komnir með góða forystu sem að þeir svo héldu út leikinn.

Þórsarar voru langt frá sínu besta og enda leikurinn því með sannfærandi sigri heimamanna, lokatölur 99-58.

 

9.flokkur drengja hóf sitt tímabil á 6 leikjum en í 9. flokki teflum við Þórsarar fram þremur liðum, flest á landinu ásamt KR, Haukum og Stjörnunni!

Fyrsti leikur A-liðsins var gegn KR og fór í framlengingu þar sem heimamenn áttu aðeins meira eftir á tankinum.

Seinni leikur A-liðsins var gegn Aþenu sem var einnig hrikalega spennandi. Strákarnir okkar voru lengi í gang og því leiddi Aþena með 10 stigum snemma í leiknum. Okkar menn tóku loks við sér og komu sér aftur inn í leikinn en niðurstaða leiksins var 1 stigs sigur Aþenu, leikurinn réðist á vítalínunni.

 

B-liðið spilaði um helgina við ÍA og Þór Þorlákshöfn. Fyrri leikurinn okkar manna var gegn A-liði Skagamanna. Það reyndist vera aðeins of stór biti fyrir strákana og því var niðurstaða leiksins 77-33.

Á Sunnudaginn spilaði B-liðið við Þór Þorlákshöfn. Því miður byrjuðu okkar menn leikinn ekki nægilega vel en náðu þó að minnka muninn. Nafnar okkar börðust vel til á móti og náðu að tryggja stigin tvö.

 

C-liðið spilaði á laugardaginn við B-lið Fjölnis. Ljóst var að þetta yrði erfiður leikur fyrir strákana og þrátt fyrir mikla baráttu unnu Fjölnismenn sannfærandi.

Á sunnudaginn spilaði C-liðið við C-lið KR. Okkar menn voru sterkara liðið og spiluðu frábærlega saman. Leikurinn endaði 67-32 fyrir okkar strákum.

 

12.flokkur hóf helgina á leik við ÍA. ÍA þykja vera með sterkt lið í deildinni en okkar menn voru frekar lengi í gang. Frábær vörn í seinni hálfleik sneri þó leiknum og strákarnir sigldu heim 10 stiga baráttu sigri.

Á sunnudaginn spilaði 12.flokkur við Ármann. Þessi lið hafa mæst oft áður og hafa Þórsarar vanalega verið sterkara liðið. Þessi leikur spilaðist eftir væntingum og voru við með 15 stiga forystu í öðrum leikhluta. Okkar menn urðu þó of værukærir og hleyptu Ármenningum aftur inn í leikinn. Við náðum þó að klára leikinn sterkt og var lokastaðan 86-95 okkur í vil.

 

Fyrstu heimaleikir okkar flokka hefjast næstu helgi þegar Álftanes koma í heimsókn og spila við Þór B í 9. flokki. Næsti leikur í yngri flokkum er leikur Þórs og Tindastóls í dag, miðvikudag kl. 20:00.