Rafíþróttir: Þór og SAGA mætast í undanúrslitum Stórmeistaramótsins

Hver stórviðburðurinn rekur annan hjá íþróttafólki Þórs þessa dagana. Fram undan eru undanúrslit og úrslit í Stórmeistaramótinu í tölvuleiknum Counter Strike og þar eru Íslandsmeistarar Þórs að sjálfsögðu á meðal keppenda.

(uppfært, leiðréttar upplýsingar frá upphaflegri frétt)

Fyrirkomulagi mótsins var breytt frá því sem verið hefur og hófu öll liðin leik á sama stað. Vinna þurfti þrjá leiki til að tryggja sig áfram í átta liða úrslit, en með þremur töpum féllu lið úr leik. Þórsarar unnu strax þrjá leiki, gegn Fylki, Aurora og Young Prodigies og komust þannig í átta liða úrslit. Þar mættu þeir VALLEA síðastliðinn fimmtudag og unnu og eru því komnir í undanúrslit. Næsti mótherji er SAGA, en sigurliðið úr þeirri viðureign mætir annaðhvort NOCCO Dusty eða Aurora.

Undanúrslitaviðureignirnar og úrslitaleikurinn fara fram á tölvuleikjastaðnum Arena Gaming að Smáratorgi 3 í Kópavogi. Liðin verða semsagt öll á staðnum og spila þar. Áhorfendur eru velkomnir á staðinn til að fylgjast með. 

Þór og SAGA eigast við á morgun, föstudaginn 22. mars, og hefst viðureignin kl. 18:30. Allir leikirnir eru í beinni á  rás Rafíþróttasamtaka Íslands á Twitch og á Stöð 2 eSport.

Myndirnar hér að neðan eru skjáskot úr umfjöllun á vefnum frag.is

Undanúrslitaviðureignirnar eru á dagskrá kl. 18:30 og 21:00 á föstudagskvöld, en úrslitaleikurinn verður kl. 20 á laugardag.

Fréttaritari thorsport.is er ekki sérfræðingur í Counter Strike, en það þarf þó ekki mikla yfirlegu til að sjá að Þórsarar raða sér á meðal efstu manna yfir árangur einstakra leikmanna. Þarna eru allee**, Tony, Dabbehhh og peterrr í 2.-5. sæti eins og staðan er núna.