Stjórn RÍSÍ ályktar um upplýsingaóreiðu og lyfjamisnotkun

Stjórn Rafíþróttasamtaka Íslands hefur sent frá sér tvær ályktanir sem tengjast starfsemi samtakanna, innviðum þeirra, hvernig koma megi í veg fyrir upplýsingaóreiðu í framtíðinni og hvernig keppnisumhverfi samtökin ætla að skapa. Síðari ályktunin kemur fram í ljósi umræðu um lyfjamisnotkun einstaka keppenda innan rafíþróttanna.
 
Ályktanirnar voru birtar á Facebook-síðu samtakanna fyrr í kvöld.

Counter-Strike umhverfið aldrei stærra

Um Ljósleiðaradeildina segir meðal annars að út frá mælanlegum stærðum hafi Counter-Strike umhverfið aldrei verið stærra á Íslandi, en hins vegar sé keppnisumhverfið enn ungt og óreynt:

  • Á hverju ári drögum við sem samband lærdóm af því sem betur mátti fara. Eitt af þeim málum sem komu upp á liðnu tímabili reyndi á upplýsingagjöf og hlutverk hverrar einingar sem var ekki nógu skýrt þó það stæði í lögum og reglum sambandsins, segir meðal annars í ályktunni.
  • En um tíma beindi almenningur sjónum sínum að félagi sem sótti rétt sinn til áfrýjunarnefndar, en ekki að RÍSÍ innviðum sem stóðust ekki prófið. Í kjölfarið hefur verið farið í endurskipulagningu á hlutverkum hverrar einingar.
  • Stjórn RÍSÍ harmar að neikvæð athygli hafi beinst á ranga staði og ítrekar að það er réttur hvers aðila í rafíþróttum að sækja mál til áfrýjunarnefndar en í þessu máli ól upplýsingaskortur um úrlausn máls á vantrausti.

Leitað verði leiða til að innleiða lyfjaeftirlit

Um lyfjamisnotkun segir meðal annars:

  • Í ljósi umræðu um lyfjamisnotkun hjá einstaka keppendum í rafíþróttum þá leggur stjórn RÍSÍ það til að leitast verði allra leiða til að innleiða lyfjaeftirlit í rafíþróttaumhverfiniu. Með þessu vill stjórn senda skýr skilaboð út í umhverfið.
  • Því fylgir ábyrgð að undirbúa jarðveginn fyrir næstu kynslóð og ef svo reynist að það séu einhverjir keppendur að misnota lyf þá er það ekki umhverfið sem stjórn RÍSÍ vill að bíði yngri kynslóðarinnar þegar hún kemst á stóra sviðið.

Ályktanirnar í heild má lesa á myndunum hér að neðan.