Elmar Freyr, Maddie og Sandra María öll í topp tíu hjá ÍBA

Íþróttafólk Þórs 2023 ásamt Nóa Björnsssyni, formanni félagsins. Mynd: Páll Jóhannesson.
Íþróttafólk Þórs 2023 ásamt Nóa Björnsssyni, formanni félagsins. Mynd: Páll Jóhannesson.

Íþróttabandalag Akureyrar hefur birt lista yfir það íþróttafólk sem varð í tíu efstu sætunum í kjöri íþróttakonu Akureyrar annars vegar og íþróttakarls Akureyrar hins vegar fyrir árið 2023. 

Þór sendi inn þrjár tilnefningar, þau þrjú sem voru kjörin íþróttafólk Þórs fyrir árið 2023, en eins og áður hefur komið fram urðu tvær jafnar í kjörinu á íþróttakonu Þórs. Elmar Freyr Aðalheiðarson frá hnefaleikadeild Þórs var kjörinn íþróttakarl Þórs og er á meðal tíu efstu karla í kjöri íþróttakarls Akureyrar. Körfuboltakonan Maddie Sutton og knattspyrnukonan Sandra María Jessen deila titlinum íþróttakona Þórs 2023 og voru báðar tilnefndar af félaginu í kjöri íþróttakonu Akureyrar. Þær eru báðar á topp tíu listanum. Á topp tíu listanum yfir konurnar er svo einnig Matea Lonac, markvörður handknattleiksliðs KA/Þórs.

Íþróttahátíð Akureyrar fer fram í Hofi miðvikudaginn 31. janúar og hefst kl. 17:30. Hátíðin er öllum opin að því er fram kemur í frétt ÍBA.

Dagskrá hátíðarinnar

  • Hátíðin sett af formanni ÍBA
  • Ávarp formanns fræðslu- og lýðheilsuráðs
  • Kynning á Íslandsmeisturum 2023
  • Kynning á heiðursviðurkenningum fræðslu- og lýðheilsuráðs
  • Styrkveiting úr Afrekssjóði Akureyrar
  • Kynning á tilnefningum tíu efstu til Íþróttafólks Akureyrar 2023
  • Kjöri íþróttkarls og íþróttakonu Akureyrar 2023 lýst