Elmar og Sveinn með sigra á bikarmóti HNÍ

Daði Ástþórsson, Ágúst Davísson, Sveinn Sigurbjarnason, Elmar Freyr Aðalheyðarson og Garðar Darri Gu…
Daði Ástþórsson, Ágúst Davísson, Sveinn Sigurbjarnason, Elmar Freyr Aðalheyðarson og Garðar Darri Gunnarson

Laugardaginn 2. september fór fram bikarmót í hnefaleikum í húsakynnum WBCA í Reykjavík.

Tólf viðureignir voru á dagskrá og mikil spenna fyrir fyrsta móti tímabilsins.

Sveinn vann á stigum

Af keppendum úr röðum Þórs var Sveinn Sigurbjarnason fyrstur á dagskrá en hann keppir í flokki u19 -80 kg. Hann mætti Kristni Jóni Karlsyni frá Hnefaleikafélagi Kópavogs. Fyrsta lotan var nokkuð jöfn en Sveinn var þó alltaf skrefinu á undan, hann pressaði vel á Kristin og var duglegur að svara þegar Kristinn reyndi að slá hann með föstum höggum. Sveinn náði að vera í mjög góðri stöðu og gaf lítið færi á sér, svo Kristinn þurfti alltaf að reyna að þvinga opnanir. Við því var Sveinn oftast vel viðbúinn og svaraði með góðum höggum, Þegar leið á lotu tvö var svo aðeins farið að draga af Kristni og hann farinn að þreytast en Sveinn hélt áfram að pressa á hann. Þriðja lota var því nokkuð örugg hjá Sveini og vann hann viðureignina á stigum 30-27.

Viðureign stöðvuð

Næstur í hringinn var Ágúst Davíðsson, en hann mætti Pétri Stanislav Karlssyni í +92 kg elite-flokki karla. Pétur ætlaði greinilega að losa sig við Ágúst snemma því hann óð í hann eins og óður maður, dómarinn þurfti nokkrum sinnum að vara Pétur við fyrir að hafa höfuðið á undan sér og endaði með að taka af honum eitt stig fyrir það. Ágústi gekk ekki nógu vel að halda Pétri frá sér og þegar Pétur komst nógu nálægt lét hann höggin dynja á Ágústi. Ágúst blokkaði þó mörg af höggunum en höggin sem náðu inn voru bombur. Dómarinn gaf því Ágústi talningu upp í átta, bæði í lotu eitt og lotu tvö og stuttu eftir seinni talninguna hafði hann séð nóg og stöðvaði viðureignina.

Elmar sigraði í annarri lotu

Elmar Freyr Aðalheiðarson var svo síðastur inn í hring. Hann mætti Kaloyan Tsvetkov í +92 kg elite-flokki karla. Elmar byrjaði viðureignina nokkuð rólega en fann þó nokkuð fljótlega að Kaloyan var frekar opinn fyrir höggum í magann. Hann byrjaði þá að setja upp fléttur sem enduðu yfirleitt á tveimur föstum höggum í búkinn. Kaloyan slapp með fyrstu talninguna því hann kraup stuttu eftir bylmingshögg í búkinn. En hann slapp ekki við næstu og fljótlega eftir það gaf hann dómaranum merki um að hann væri búinn að fá nóg og dómarinn stöðvaði viðureignina snemma í lotu tvö.

Hér má sjá viðureign Elmars:

https://www.youtube.com/watch?v=7uGL1SI0sQ0

Hér á sjá viðureign Ágústar:

https://www.youtube.com/watch?v=g221lGUPITA

Því miður er ekki til upptaka af viðureign Sveins.