Handbolti: Ögurstund í Grafarvogi í kvöld – Olís eða Grill 66?

Karlalið Þórs í handbolta á gríðarlega mikilvægan leik fyrir höndum í kvöld þar sem það ræðst hvort Þór eða Fjölnir fer upp um deild. Rútuferð frá Hamri kl. 12:30 og ákall til Þórsara syðra að fjölmenna í Grafarvoginn og styðja strákana til sigurs.

Það þarf varla að fjölyrða um mikilvægi þess að mæta á útivöll með gott og öflugt stuðningslið. Þó frábær mæting, stemning og stuðningur hafi því miður ekki riðið baggamuninn í Höllinni á Akureyri í fjórða leiknum getur slíkt skipt sköpum þegar upp er staðið. 

Leikurinn í kvöld er semsagt oddaleikur í úrslitaeinvígi Grill 66 deildar karla þar sem bæði liðin hafa unnið tvo leiki hingað til, einn á heimavelli og einn á útivelli. Hætt er við að Fjölnismenn verði heldur ferskari en Þórsarar þar sem þeir fengu hvíld á meðan Þórsarar spiluðu þrjá leiki við Hörð í undanúrslitunum, þar af tvo á Ísafirði. En liðið hefur sýnt að það hefur í fullu tré við Fjölni á góðum degi, hvort sem er á heima- eða útivelli. Enn og aftur skal því minnt á mikilvægi öflugs stuðngins úr stúkunni - slíkt verður seint ofmetið.

Rútuferð verður á leikinn, sætið kostar 2.000 krónur. Brottför frá Hamri kl. 12:30.