Sandra María í þriðja sæti í vali á knattspyrnukonu ársins

Sandra yfirgaf Þór/KA í haust og gekk í raðir Kölnar.
Sandra yfirgaf Þór/KA í haust og gekk í raðir Kölnar.

Glódís Perla Viggósdóttir og Hákon Arnar Haraldsson eru knattspyrnufólk ársins 2025 samkvæmt niðurstöðu Leikmannavals KSÍ (Knattspyrnusamband Íslands). Sambandið greinir frá þessu á vefsíðu sinni í dag.

Í þriðja sæti yfir knattspyrnukonur ársins er okkar kona, Sandra María Jessen, en Sandra var í lykilhlutverki hjá Þór/KA á árinu auk þess að vera í stóru hlutverki með íslenska landsliðinu á EM sem fram fór síðasta sumar. Í kjölfarið var Sandra keypt til þýska úrvalsdeildarliðsins Köln þar sem hún hefur farið á kostum og er meðal markahæstu leikmanna þýsku Bundesligunnar sem stendur.

Cecilia Rán Rúnarsdóttir, landsliðsmarkvörður og leikmaður Inter Milan, var í öðru sæti en nánar má lesa um valið á vef KSÍ hér.

Sandra María hefur verið í fremstu röð í íslenskum fótbolta undanfarin ár og hefur verið valin íþróttakona Þórs undanfarin þrjú ár.

Við óskum Söndru til hamingju með þriðja sætið.