Körfubolti: Afleitur fyrsti leikhluti gerði útslagið

Eva Wium Elíasdóttir var öflug í kvöld og var með 100% skotnýtingu þar til langt var liðið á þriðja …
Eva Wium Elíasdóttir var öflug í kvöld og var með 100% skotnýtingu þar til langt var liðið á þriðja leikhluta. Mynd: Páll Jóhannesson

Segja má að gestirnir hafi fengið sigurinn í fangið í fyrsta leikhluta þegar Þór fékk Grindvíkinga í heimsókn í Höllina í 17. umferð Subway-deildar kvenna í körfubolta í kvöld. Þórsarar skoruðu ekki stig í sex og hálfa mínútu og munurinn orðinn 19 stig að loknum fyrstu tíu mínútunum.

Grindvíkingar byrjuðu betur, skoruðu fjögur fyrstu stigin, en staðan þó 5-5 eftir þrjár og hálfa mínútu. Þá kom afleitur kafli þar það voru aðeins gestirnir sem skoruðu það sem eftir lifði fyrsta leikhlutans. Í um sex og hálfa mínútu sáu Grindvíkingar um að skora og munurinn orðinn 22 stig þegar martröðinni lauk. Hreint ótrúlegar tölur, 5-27. Þórsliðið náði ágætis áhlaupi í upphafi annars leikhluta og minnkaði muninn í 13 stig á þremur og hálfri mínútu, 20-33, en þá tóku gestirnir aftur við sér og náðu upp sama forskoti og unnu leikhlutann með tveimur stigum. Staðan 27-51 eftir fyrri hálfleikinn. 


Körfuboltakrakkar frá Samherjum í Eyjafjarðarsveit voru sérlegir gestir á leiknum og fengu stelpurnar úr Samherjum að leiða leikmenn Þórs inn á fyrir leik. Skemmtileg tilviljun Samherjarkrakkar voru í bláu, eins og gestirnir úr Grindavík. Smellið á myndina til að skoða fleiri myndir úr leiknum. Mynd: Páll Jóhannesson.

Grindvíkingar náðu 27 stiga forystu þegar langt var liðið á þriðja leikhluta, en Þórsarar minnkuðu muninn niður í 19 stig með góðum lokakafla, unnu leikhlutann með fimm stigum og svo sveiflukenndan fjórða leikhluta með sex stigum. Þór vann því seinni hálfleikinn, 45-34, en eins og áður sagði var það afleitur fyrsti leikhluti sem gerði okkar konum erfitt um vik að komast aftur inn í leikinn.

Þór - Grindavík (5-27) (22-24) 27-51 (23-18) (22-16) 72-85

Eva Wium Elíasdóttir var öflug í kvöld, var með 100% skotnýtingu alveg fram á lokamínútur þriðja leikhluta. Lore Devos skoraði þó flest stig Þórsara, en Maddie Sutton náði sér ekki á strik fyrr en í seinni hálfleiknum þegar hún tók til við að skora og hirða fráköst eins og henni er oftast lagið. Grindvíkingar eru með öflugt lið, frábæra leikmenn innanborðs, erlenda sem innlenda, og eru illviðráðanlegar á köflum. Þegar tölfræðin er skoðuð sést þó að skotnýting liðanna var mjög svipuð, en Grindvíkingar gjörsigruðu okkar konur í fráköstunum, tóku til dæmis 20 sóknarfráköst á móti níu hjá Þór og fengu þar af leiðandi fleiri skottilraunir, eins og sést á tölfræði leiksins, 71 skot á móti 58, fyrir utan vítaskotin.

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór: Lore Devos 22/5/3, Eva Wium Elíasdóttir 19/2/10, Maddie Sutton 14/12/5, Emma Karólína Snæbjarnardóttir 9/3/0, Hrefna Ottósdóttir 6/0/0, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 2/2/0, Karen Lind Helgadóttir 0/1/1, Heiða Hlín Björnsdóttir 0/1/0. 

Grindavík: Sara Sofie Mortensen 28/16/0, Danielle Rodriguez 18/6/6, Eve Braslis 16/7/2, Hulda Björk Ólafsdóttir 10/1/1, Alexandra Sverrisdóttir 6/1/3, Ólöf Óladóttir 3/3/1, Dagný Lísa Davíðsdóttir 2/4/1, Þórey Tea Þorleifsdóttir 2/2/0, Ólöf María Bergsveinsdóttir 0/1/0. 

Með sigrinum í kvöld fóru Grindvíkingar upp í 3. sætið þar sem Stjarnan tapaði fyrir Haukum, en það þýðir einnig að Haukar tóku 5. sætið af okkar konum sem færast niður í 6. sætið og þar með neðri hluta deildarinnar fyrir lokaumferðina. Þór og Haukar hafa bæði unnið sjö leiki, en Haukar eru með vinninginn í innbyrðis viðureignunum.

Emma Karólína Snæbjarnardóttir er loksins komin á parketið aftur eftir að hafa verið frá vegna meiðsla allan fyrri hluta tímabilsins. Smellið á myndina til að opna myndaalbúm með fleiri myndum úr leiknum. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson. 

Myndaalbúm

Næst

  • Mót: Subway-deild kvenna
  • Leikur: Keflavík - Þór
  • Staður: Blue-höllin í Keflavík
  • Dagur: Þriðjudagur 30. janúar
  • Tími: 19:15
  • Aðrir leikir í lokaumferðinni:
    • Haukar-Fjölnir
    • Grindavík-Stjarnan
    • Njarðvík-Valur