Körfubolti: Bæði liði yfir 100 stig í Þórssigri

Jason Gigliotti með góða troðslu í leiknum. Hann var sem fyrr öflugur í teignum, skoraði mest og tók…
Jason Gigliotti með góða troðslu í leiknum. Hann var sem fyrr öflugur í teignum, skoraði mest og tók flest fráköst Þórsara. Myndin í heilu lagi er inni í fréttinni. Mynd: Páll Jóhannesson.

Þórsarar unnu lið Snæfells úr Stykkishólmi með 13 stiga mun í 12. umferð 1. deildar karla í körfuknattleik í gærkvöld, Gestirnir skoruðu 100 stig, en það var ekki nóg því Þórsarar skoruðu 113.

Snæfell hafði frumkvæðið og nokkurra stiga forystu lengst af fyrri hálfleiknum, en Þórsarar luku honum með stuttu áhlaupi og voru tveimur stigum yfir eftir fyrri hálfleikinn, 58-56. Áhlaup Þórsara hélt svo áfram í upphafi þriðja leikhluta, en gestirnir minnkuðu muninn í tvö stig undir lok þriðja leikhluta og aftur í upphafi fjórða leikhluta. Þá kom góður kafli Þórsara eftir að Óskar tók leikhlé þegar átta mínútur voru eftir. Þórsarar skoruðu þá tíu stig í röð og náðu loks tökum á leiknum, náðu mest 15 stiga forskoti, en unnu að lokum með 13 stigum.

Fjórði leikhlutinn bar merki þess að Snæfell skorti breidd til að halda í við spræka Þórsara, en eins og sjá má á stigaskorinu var heldur meira púður í sóknarleik en varnarleik liðanna í gærkvöld.

Þór - Snæfell (30-31) (28-25) 58-56 (22-21) (33-23) 113-100


Jason Gigliotti treður. Jaeden King og Calvin Poulina úr liði gestanna fylgjast með. Mynd: Páll Jóhannesson. 

Jason Gigliotti var öflugastur í liði Þórs, skoraði 32 stig, tók tíu fráköst og átti þrjár stoðsendingar. Harrison Butler og Reynir Róbertsson skoruðu báðir 23 stig. Baldur Örn Jóhannesson skoraði 13 stig, tók átta fráköst og átti sex stoðsendingar. Hákon Hilmir Arnarsson átti skemmtilegan kafla undir lok þriðja leikhlutans, skoraði þá tvær þriggja stiga körfur í röð og tók varnarfrákast skömmu síðar. Hákon spilaði 13 mínútur í leiknum, skoraði átta stig og var með 100% skotnýtingu.  

Jaeden King var langatkvæðamestur í liði gestanna, skoraði 43 stig, en næstur kom Pavle Kraljic með 19 stig og 12 fráköst. 

Tölfræðin í myndrænu formi, smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði leiksins.

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór: Jason Gigliotti 32/10/3, Harrison Butler 23/6/5, Reynir Róbertsson 23/3/5, Baldur Örn Jóhannesson 13/8/6, Smári Jónsson 9/1/6, Hákon Hilmir Arnarsson 8/3/0, Páll Nóel Hjálmarsson 5/0/0, Sigurjón Guðgeirsson Hjarðar 0/1/0, Michael Walcott 0/2/1.

Snæfell: Jaeden King 43/9/2, Pavle Kraljic 19/12/0, Calvin Poulina 16/4/2, Eyþór Lár Bárðarson 11/3/5, Ellert Hermundarson 5/3/0, Aron Hinriksson 4/2/4, Snjólfur Björnsson 2/1/1.

Sigurinn í gærkvöld var sá þriðji í síðustu fjórum leikjum Þórs og sá fimmti í 12 leikjum í deildinni. Þórsarar eru jafnir Skallagrími í 7.-8. sætinu, en Skagamenn eru þar næstir fyrir ofan með einum sigri meira. Næsti leikur Þórs er útileikur gegn KR-ingum sem hafa unnið tíu af tólf leikjum og eru jafnir Fjölni í 2.-3. sæti deildarinnar.

Myndaalbúm - Páll Jóhannesson

Næst

  • Mót: 1. deild karla
  • Leikur: KR - Þór
  • Staður: Meistaravellir
  • Dagur: Fimmtudagur 18. janúar
  • Tími: 19:15