Körfubolti: Jason Gigliotti með 50 framlagsstig í sigri

Jason Gigliotti: 33 stig, 20 fráköst, 50 framlagsstig. Mynd: Páll Jóhannesson
Jason Gigliotti: 33 stig, 20 fráköst, 50 framlagsstig. Mynd: Páll Jóhannesson

Þór vann ÍA með tíu stiga mun, 90-80, í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Jason Gigliotty átti frábæran leik, skemmti áhorfendum með troðslum og kláraði leikinn með 50 framlagsstigum.

Þórsarar byrjuðu af krafti og höfðu yfirhöndina í fyrsta leikhluta, en Skagamenn náðu upp stemningu og áhlaupi í öðrum og hrifsuðu forskotið áður en fyrri hálfleik lauk. Munurinn var þó ekki nema fimm stig þegar liðin gengu til búningsklefa. Fljótlega í þriðja leikhluta fundu Þórsarar neistann aftur, jöfnuðu leikinn og sigu fram úr. Seinni hálfleikurinn var hin besta skemmtun, jafn og spennandi leikur þó Þórsarar hafi haldið forskotinu, barátta í báðum liðum, alls konar dómar sem stuðnginsmenn, leikmenn og þjálfarar að minnsta kosti annars liðsins hverju sinni voru ósammála og létu það í ljós með ýmsum hætti þannig að til urðu tæknivillur á báða bóga. Skagamenn reyndu hvað þeir gátu að vinna aftur upp forskot Þórsara, en okkar menn voru ákveðnir í að gefa það ekki til baka, jafnvel þótt villuvandræði gerðu vart við sig þegar leið á leikinn. 


Hópurinn fyrir leik gegn ÍA í kvöld. Aftari röð frá vinstri: Ivica Petric aðstoðarþjálfari, Sigurjón Guðgeirsson Hjarðar, Andri Már Jóhannesson, Róbert Orri Heiðmarsson, Jason Gigliotti, Harrison Butler, Baldur Örn Jóhannesson fyrirliði, Veigar Svavarsson og Óskar Þór Þorsteinsson. Fremri röð frá vinstri: Michael Walcott, Smári Jónsson, Hákon Hilmir Arnarsson, Páll Nóel Hjálmarsson, Reynir Róbertsson og Orri Már Svavarsson. Mynd: Páll Jóhannesson.

Þór - ÍA (26-19) (16-28) 42-47 (26-17) (22-16) 90-80

Jason Gigliotti var öflugur í kvöld, skoraði 33 stig og tók 20 fráköst. Bæði lið voru komin í villuvandræði þegar leið á leikinn og til dæmis spiluðu Baldur Örn Jóhannesson og Jason nokkuð lengi með fjórar villur og Harrison Butler fékk sína fjórðu þegar fjórar mínútur voru eftir. Baldur Örn og Harrison fengu svo báðir fimmtu villuna undir lok leiksins, en það kom ekki að sök. Tveir Skagamenn fóru reyndar einnig af velli með fimm villur.

Stig/fráköst/stoðsendingar

ÞórJason Gigliotti 33/20/1, Harrison Butler 26/13/1, Reynir Róbertsson 20/4/1, Baldur Örn Jóhannesson 6/10/1, Smári Jónsson 2/1/7, Orri Már Svavarsson1/1/0, Michael Walcott 2/0/0, Páll Nóel Hjálmarsson 0/1/1, Andri Már Jóhannesson 0/1/0.

ÍA: Srdjan Stojanovic 25/4/6, Aamondae Coleman 21/8/1, Þórður Freyr Jónsson 11/2/1, Styrmir Jónasson 8/2/2, Lucien Christofis 7/6/4, Aron Dagsson 3/5/1, Gerardas Slapikas 3/0/0, Jónas Steinarsson 2/4/0, Júlíus Duranona 0/1/0. 

Þórsarar voru vel yfir gestunum í frákastabarátunni, en þar munaði 20 fráköstum. Þórsarar með 57 fráköst á móti 37 hjá gestunum. Skotnýting Þórsara var í lagi innan þriggja stiga línunnar, en utan hennar datt aðeins eitt skot niður af 17. Skagamenn voru betri á því sviði og reyndu mikið af slíkum með fyrrum leikmann Þórs, Srdjan Stojanovic, í fararbroddi. Þeir skoruðu úr 11 þriggja stiga skotum, en þurftu til þess 35 tilraunir.

Hér að neðan má sjá helstu tölfræði á myndrænan hátt, en ítarlega tölfræði má skoða með því að smella á myndina.

 

Þórsarar eru núna einum sigri á eftir Skagamönnum þegar liðin hafa leikið 18 leiki af 22. Þar fyrir ofan eru Þróttur Vogum með tveimur sigrum meira en Þór og Skallagrímur þar fyrir ofan með einum sigri meira en Þróttur. Þórsarar fá Þrótt í heimsókn í Höllina í næstu umferð.

Næst

  • Deild: 1. deild karla
  • Leikur: Þór - Þróttur V.
  • Staður: Íþróttahöllin á Akureyri
  • Dagur: Föstudagur 1. mars
  • Tími: 19:15