Körfubolti: Öruggur sigur í Hólminum

Hulda Ósk Bergsteinsdóttir skorar í viðureign Þórs og Snæfells í Íþróttahöllinni í október. Mynd: He…
Hulda Ósk Bergsteinsdóttir skorar í viðureign Þórs og Snæfells í Íþróttahöllinni í október. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Þór vann öruggan sigur á liði Snæfells í fyrstu umferð Subway-deildarinnar eftir skiptingu deildarinnar í A- og B-hluta. Þórsarar leiddu frá upphafi, voru með góða forystu eftir fyrri hálfleikinn og gengu endanlega frá sigrinum með frábærum þriðja leikhluta þegar þær skoruðu 16 stig í röð á sex mínútna kafla.

Leikur liðanna hófst 45 mínútum eftir áætlaðan tíma vegna tafa sem urðu á ferðalagi Þórskvenna vestur í Stykkishólm. Það virtist þó ekki há þeim. Okkar konur byrjuðu betur og leiddu með sex stigum að loknum fyrsta leikhlutanum. Annar leikhluti var örlítið jafnari, báðum liðum gekk heldur erfiðlega að skora, Þór hélt 8-12 stiga forskoti og leiddi með 11 stigum að loknum fyrri hálfleiknum.

Ferðaþreyta virðist ekkert hafa angrað Þórsliðið því stelpurnar keyrðu af krafti inn í seinni hálfleikinn, héldu góðum tökum á leiknum á meðan heimakonum í Snæfelli gekk ekkert að koma boltanum ofan í körfuna. Þegar sjö mínútur voru eftir af þriðja leikhluta var staðan 31-45, en á næstu sex mínútum skoruðu Þórsarar 16 stig í röð og breyttu stöðunni í 31-61. Fjórði leikhluti var bras og fyrstu stig Þórsliðsins létu bíða eftir sér í tæpar fjórar mínútur, en eftir að Eva Wium kom liðinu á bragðið komu tveir þristar frá Hrefnu Ottósdóttur á stuttum tíma. Allar 12 í leikmannahópi Þórs fengu að spreyta sig í fjórða leikhlutanum og sigldu sigrinum heim þó Snæfell ynni leikhlutann með átta stiga mun.  leikhlutann.

Snæfell - Þór (17-23) (8-13) 25-36 (8-28) (20-12) 53-76

Lore Devos og Maddie Sutton voru sem oftast áður atkvæðamestar í Þórsliðinu.

Stig/fráköst/stoðsendingar

Snæfell: Shawnta Grenetta Shaw 18/11/3, Mammusu Secka 11/6/3, Eva Rupnik 11/3/0, Jasmina Jones 6/5/0, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 5/3/0, Adda Ásmundsdóttir 2/1/0, Dagný Inga Magnúsdóttir 0/0/1, Alfa Frost 0/0/1.

Þór: Lore Devos 24/8/4, Maddie Sutton 23/13/4, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 12/5/0, Hrefna Ottósdóttir 9/5/1, Eva Wium Elíasdóttir 6/4/5, Emma Karólína Snæbjarnardóttir 2/3/1, Heiða Hlín Björnsdóttir 0/6/1, Karen Lind Helgadóttir 0/1/1, Valborg Elva Bragadóttir 0/1/0.

Helstu tölur, smellið á myndina til að skoða tölfræði leiksins.

Með sigrinum í kvöld er Þórsliðið áfram í efsta sæti B-hluta Subway-deildarinnar (6. sæti yfir alla deildina), en Þór og Valur berjast um 6. og 7. sæti deildarinnar í heild. Þórsarar hafa unnið átta leiki, Valur sjö og Fjölnir og Snæfell tvo leiki hvort. Þór og Valur eru því örugg með sæti í úrslitakeppninni, en Fjölnir og Snæfell bítast um síðasta sætið í átta liða úrslitunum. Leikirnir fram undan skera einfaldlega úr um röð liðanna og þar með hvaða andstæðingi úr efri hlutanum liðin mæta í átta liða úrslitum deildarinnar.

Næst

  • Mót: Subway-deild kvenna, B-hluti
  • Leikur: Þór - Fjölnir
  • Staður: Íþróttahöllin á Akureyri
  • Dagur: Þriðjudagur 13. febrúar
  • Tími: 19:15
  •