Íþróttafólk Þórs: Arna Sif oftast valin

Íþróttafólk Þórs 2021, Ragnar Ágústsson og Arna Sif Ásgrímsdóttir. Arna Sif hefur alls fimm sinnum h…
Íþróttafólk Þórs 2021, Ragnar Ágústsson og Arna Sif Ásgrímsdóttir. Arna Sif hefur alls fimm sinnum hlotið þessa nafnbót. Myndir: Skapti Hallgrímsson/akureyri.net

Val á íþróttamanni Þórs með þeim hætti sem við þekkjum núna hófst árið 1990 að frumkvæði Ragnars Sverrissonar kaupmanns í JMJ. Áður hafði staðið nokkur styr um valið sem varð til þess að Ragnar tók af skarið og gaf verðlaunagrip.

Kjöri íþróttafólks Þórs 2022 verður lýst í Hamri í dag, en verðlaunahátíðin Við áramót hefst kl. 17. Við ætlum aðeins að líta á sögu þessara viðurkenninga.

Þetta er 33. árið sem sem íþróttafólk Þórs er valið og heiðrað með þeim hætti sem nú er gert þar sem deildir félagsins tilnefna íþróttafólk ársins úr sínum röðum og síðan er valið á milli þeirra einstaklinga. Undantekning er þó heimsfaraldursárið 2020 þegar ákveðið var að velja sjálfboðaliðann sem mann ársins í stað þess að heiðra tiltekna einstaklinga úr deildum félagsins. Núverandi íþróttafólk Þórs eru þau Arna Sif Ásgrímsdóttir og Ragnar Ágústsson. Hvorugt þeirra er í kjöri að þessu sinni þar sem þau leika nú bæði með öðrum félögum.

Ásta Árnadóttir fyrst kvenna

Alls hafa 26 einstaklingar hlotið nafnbótina íþróttamaður, íþróttakarl eða íþróttakona Þórs. Á árunum 1990 til og með 2013 var á hverju ári valinn einn einstaklingur, íþróttamaður Þórs. Karlar hrepptu þessa viðurkenningu fyrstu 12 árin, en Ásta Árnadóttir knattspyrnukona var fyrst kvenna til að hljóta þennan titil árið 2002 (sjá skjáskot hér til hliðar úr Morgunblaðinu 2. mars 2003). Í kjölfar hennar komu svo Rut Sigurðardóttir árið eftir og Rakel Hönnudóttir og Arna Sif Ásgrímsdóttir nokkrum árum síðar. Ásta starfar sem sjúkraþjálfari, meðal annars fyrir kvennalið Vals og kvennalandsliðið í knattspyrnu. 

Tvískipt frá 2014

Árið 2014 var ákveðið að tvískipta þessum titli og verðlauna annars vegar íþróttakarl Þórs og hins vegar íþróttakonu Þórs. Þannig hefur það verið á hverju ári síðan, utan heimsfaraldursárið 2020, þegar ákveðið var að velja ekki einstaklinga úr hópi íþróttafólks heldur útnefna sjálfboðaliðann sem íþróttamann ársins hjá félaginu.

Arna Sif Ásgrímsdóttir hefur oftast hlotið þennan titil, eða fimm sinnum. Hlynur Birgisson og Tryggvi Snær Hlinason koma næstir með þrjá titla. Hlynur er sá einstaklingur sem unnið hefur þennan titil með lengstu millibili, en hann var íþróttamaður Þórs 1992 og 1993, og svo aftur þrettán árum síðar, 2006. Tryggvi Snær Hlinason var valinn íþróttakarl Þórs öll þrjú árin sem hann spilaði körfubolta með Þór – og þarf ekki að koma á óvart.

Íþróttamaður Akureyrar níu sinnum frá Þór (og Þór/KA)

Fimm sinnum hefur íþróttafólk Þórs einnig hlotið nafnbótina íþróttamaður Akureyrar:
2003: Rut Sigurðardóttir, tae-kwondo
2008: Rakel Hönnudóttir, knattspyrna
2012: Arna Sif Ásgrímsdóttir, knattspyrna
2017: Stephany Mayor, knattspyrna
2017: Tryggvi Snær Hlinason, körfuknattleikur

Áður en núverandi fyrirkomulag var tekið upp við val á íþróttafólki Þórs árið 1990 höfðu tveir einstaklingar úr okkar röðum hlotið nafnbótina íþróttamaður Akureyrar, tvisvar sinnum hvor. Þetta voru Haraldur Ólafsson lyftingamaður árin 1980 og 1981 og Halldór Ómar Áskelsson knattspyrnumaður 1984 og 1987. 

Á vef ÍBA má finna lista yfir öll þau sem orðið hafa fyrir valinu sem íþróttamaður Akureyrar (1979-2015) og síðan íþróttakarl og íþróttakona Akureyrar (2016-2021)

Íþróttamaður Akureyrar 1979-2021 | Íþróttabandalag Akureyrar (iba.is)

Hér eru svo tenglar á pdf-skjöl með fróðleik um valið:

Íþróttafólk Þórs 1990-2021
Íþróttafólk Þórs - fjöldi titla eftir einstaklingum
Íþróttafólk deilda Þórs 1990-2021


Halldór Ómar Áskelsson var ekki aðeins valinn íþróttamaður Akureyrar 1987 heldur einnig valinn íþróttamaður Norðurlands af Norðurlandsblaðinu Degi. Skjáskot af timarit.is, Dagur, 21. mars 1988.