Elmar Freyr Íslandsmeistari þriðja árið í röð!

Elmar Freyr Aðalheiðarson, Íslandsmeistari í hnefaleikum þriðja árið í röð! Myndin er af Facebook-sí…
Elmar Freyr Aðalheiðarson, Íslandsmeistari í hnefaleikum þriðja árið í röð! Myndin er af Facebook-síðu hnefaleikadeildar Þórs.

Elmar Freyr Aðalheiðarson vann í dag Íslandsmeistaratitil í +92ja kg flokki í hnefaleikum, þriðja árið í röð.

Elmar mætti Magnúsi Kolbirni úr Hnefaleikafélagi Kópavogs í skemmtilegri viðureign, að því er fram kemur á Facebook-síðu hnefaleikadeildar Þórs. „Þeir sýndu hvers þungavigtarboxarar eru megnugir og á kafla nötraði allur hringurinn. Viðureignin var jöfn og spennandi og tvísýnt að allar loturnar yrðu farnar. En þeir bitu á jaxlinn og skiptust á höggum allt til loka,“ segir á síðu deildarinnar.

Við óskum Elmari Frey til hamingju með þennan glæsilega árangur.

Annar keppandi frá hnefaleikadeild Þórs, Sveinn Sigurbjarnarson, stóð einnig fyrir sínu, en hann þurfti að játa sig sigraðan í undanúrslitum í -80 kg flokki U19. Viðureign Sveins og Benedikts Gylfa úr Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar var jöfn, en að lokum var það Benedikt sem hafði sigur með klofinni dómaraákvörðun.


Magnús Kolbjörn, frá Hnefaleikafélagi Kópavogs, og Elmar Freyr Aðalheiðarson úr hnefaleikadeild Þórs, áttust við í úrslitaviðureigninni í 82+ kg flokki og hafði Elmar Freyr betur. Mynd: Hnefaleikadeild Þórs.


Sveinn Sigurbjarnarson varð að játa sig sigraðan í undanúrslitum í -80 kg flokki U19.


Sævar Ingi Rúnarsson er ekki bara formaður hnefaleikadeildar Þórs heldur er hann iðinn við að dæma. Hér er hann á Íslandsmótinu um helgina.