Körfubolti: Tap í Borgarnesi – oddaleikur í Höllinni

Þórsarar verða að þjappa sér saman fyrir laugardagskvöldið, en þá fer fram oddaleikur í einvígi Þórs…
Þórsarar verða að þjappa sér saman fyrir laugardagskvöldið, en þá fer fram oddaleikur í einvígi Þórs og Skallagríms í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta. Mynd: Páll Jóhannesson.

Eftir þrjá hnífjafna leiki í einvígi Þórs og Skallagríms í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta fengu okkar menn á baukinn í Borgarnesi í gær. Einvígið er jafnt, 2-2, og verður oddaleikur í Íþróttahöllinni á Akureyri á laugardag.

Heimamenn í Skallagrími höfðu yfirhöndina mestallan leikinn, en fyrri hálfleikurinn þó tiltölulega jafn, aðeins fimm stiga munur í leikhléi. Skallagrímur skoraði hins vegar tvö stig fyrir hvert eitt sem Þórsarar skoruðu í þriðja leikhluta og sigu örugglega fram úr, munurinn orðinn 23 stig fyrir lokafjórðunginn og úrslitin ráðin. 

Skallagrímur - Þór (19-17) (24-21) 43-38 (31-15) (25-20) 99-73

Stig/fráköst/stoðsendingar

Jason Gigliotti 18/5/3, Reynir Róbertsson 14/8/3, Harrison Butler 14/6/2, Smári Jónsson 11/4/5, Baldur Örn Jóhannesson 5/7/3, Páll Nóel Hjálmarsson 5/1/0, Hákon Hilmir Arnarsson 2/1/1, Róbert Orri Heiðmarsson 2/1/0, Sigurjón Trausti Guðgeirsson Hjarðar 2/1/0, Arngrímur Alfreðsson 0/1/0.

Það er því ljóst að liðin munu mætast í oddaleik um það hvort fer áfram í undanúrslit og mætir ÍR í næstu umferð. Einvígi Þórs og Skallagríms er það eina sem fer í oddaleik, en ÍR og Fjölnir fóru bæði áfram með 3-0 sigrum gegn Selfyssingum og Skagamönnum. Sindri fór áfram án þess að spila þar sem Þróttarar í Vogum gáfum einvígið. 

Leikur Þórs og Skallagríms verður í Íþróttahöllinni á Akureyri laugardaginn 20. apríl og hefst kl. 19:15. Sigurliðið mætir ÍR í undanúrslitum, en það einvígi hefst í Breiðholtinu miðvikudaginn 24. apríl.