Handbolti: Góð byrjun Þórsara dugði ekki til sigurs

Mætingin í Höllina var frábær, stremningin sömuleiðis, gríðarlegur stuðningur við liðið, góð byrjun …
Mætingin í Höllina var frábær, stremningin sömuleiðis, gríðarlegur stuðningur við liðið, góð byrjun á leiknum, en það dugði því miður ekki til. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.

Oddaleik þarf í einvígi Þórs og Fjölnis til að skera úr um það hvort liðið fer upp í Olísdeild karla í handbolta á næsta tímabili eftir að Fjölnismenn unnu fjórða leik liðanna í Höllinni á Akureyri í gær. Frábær byrjun Þórsliðsins dugði ekki til. 

Í upphafi leiks var ekki margt sem benti til þess að gestirnir færu með sigur af hólmi. Frábær mæting hjá stuðningsfólki Þórs, frábær byrjun á leiknum, Þórsarar komnir í 4-0 áður en gestunum tókst að skora sitt fyrsta mark eftir rúmlega átta mínútna leik. Þórsarar héldu áfram á fullri ferð og voru komnir með sjö marka forystu, 9-2, eftir rúmar 13 mínútur. Afleitur kafli í lok fyrri hálfleiks hleypti Fjölnismönnum hins vegar aftur inn í leikinn. Fimm síðustu mörk fyrri hálfleiks voru gestanna og munurinn skyndilega kominn niður í eitt mark, staðan 11-10 í leikhléinu.

Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri endaði. Vörn Fjölnis hélt aftur af sóknarleik og skyttum Þórs. Samanlagt í lok fyrri og upphafi seinni hálfleiks liðu rúmlega 13 og hálf mínúta án þess að Þórsurum tækist að skora. Fjölnismenn skoruðu átta mörk í röð frá 11-5 í 11-13. Leikurinn var síðan í járnum á tímabili, Þórsarar jöfnuðu í 15-15 og 19-19, en þá komu fjögur mörk í röð frá Fjölni, staðan 19-23 þegar um fimm og hálf mínúta lifði leiks. Þórsarar fengu tvívegis tækifæri á lokakaflanum til að minnka muninn í eitt mark, en náðu ekki að nýta þau tækifæri og gestirnir sigldu sigrinum í höfn.

Virkilega svekkjandi niðurstaða eftir frábæra byrjun og gríðarlega góða stemningu og stuðning úr stúkunni.

Þór - Fjölnir 22-26 (11-10)

Þór
Mörk: Aron Hólm Kristjánsson 6, Arnór Þorri Þorsteinsson 5, Brynjar Hólm Grétarsson 5, Sigurður Ringsted Sigurðsson 2, Arnþór Gylfi Finnsson 1, Friðrik Svavarsson 1, Halldór Kristinn Harðarson 1, Þormar Sigurðsson 1. 
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 17 (39,5%).
Refsimínútur: 8.

Fjölnir
Mörk: Björgvin Páll Rúnarsson 7, Haraldur Björn Hjörleifsson 4, Viktor Berg Grétarsson 4, Óðinn Freyr Heiðmarsson 2, Sigurður Örn Þorsteinsson 2, Alex Máni Oddnýjarson 1, Elvar Þór Ólafsson 1, Victor Máni Matthíasson 1.
Varin skot: Sigurður Ingiberg Ólafsson 12 (35,3%).
Refsimínútur: 10.

Oddaleikur einvígisins fer fram í Fjölnishöllinni í Grafarvogi fimmtudaginn 2. maí og hefst kl. 19:30. Þar gildir það sama fyrir bæði lið, að duga eða dreðast, sigur eða sumarfrí.