Knattspyrna: Bikarleikur á Seltjarnarnesi í dag

Þór mætir Gróttu á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi í 32ja liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar í dag kl. 15. Stuðningsfólk kemur saman á Rauða ljóninu frá kl. 13:30.

Þórsarar á suðvesturhorninu hafa í nógu að snúast þessa dagana, nær daglega eru lið frá félaginu að leika gegn liðum syðra og eins og alltaf skiptir máli að við fáum okkar fólk á völlinn og í hallirnar. Stuðningurinn skiptir máli. Nú er komið að fótboltanum, 32ja liða úrslit í bikarkeppninni og liggur leiðin út á Seltjarnarnes.

Þórsarar sigruðu KFA örugglega í annarri umferð bikarkeppninnar, 5-1, í Boganum fyrr í mánuðinum. Grótta vann 3-2 sigur á Njarðvík í annarri umferðinni og fær nú aftur heimaleik. 

Á veitingastaðnum Rauða Ljóninu við Eiðistorg, steinsnar frá Vivaldi-vellinum, koma stuðningsmenn Þórs saman fyrir leik klukkan 13:30 og kjörið að slást í hópinn þar og rölta yfir á völlinn.

Leikur Þórs og Gróttu hefst kl. 15, og með því að smella hér er hægt að nálgast beina útsendingu frá leiknum.