Körfubolti: Sigur eða sumarfrí í kvöld

Þórsarar sækja ÍR-inga heim í Breiðholtið í kvöld í undanúrslitum úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta. Þetta er þriðji leikurinn í einvíginu og Þórsarar hreinlega verða að vinna til að halda lífi í einvíginu. Leikur liðanna fer fram í Skógarselinu og hefst kl. 19:30.

Eftir æsispennandi viðureign við Skallagrím í fyrstu umferð úrslitakeppninnar er nú við sterkari andstæðing að etja. ÍR-ingar hafa unnið tvo fyrstu leikina, en vinna þarf þrjá leiki til að fara áfram í úrslitarimmuna um sæti í Subway-deildinni, efstu deild karla. ÍR-ingar unnu fyrsta leikinn með 17 stiga mun í Breiðholtinu. Þórsarar sýndu góða frammistöðu í örðum leiknum í Höllinni, en lukkudísirnar gengu í lið með ÍR-ingum á lokamínútunni. Einu stigi munaði þegar ein og hálf mínúta var eftir, en ÍR-ingar skoruðu tíu síðustu stig leiksins og unnu með 11 stiga mun.

Það er því engin ástæða til að leggja árar í bát því með góðri frammistöðu og sigri í kvöld gætti allt gerst í framhaldinu. Í því sambandi skiptir auðvitað miklu máli að okkar öfluga stuðningsfólk syðra sem mætt hefur á leiki Þórsliða og stutt vel við bakið á liðunum mæti í Breiðholtið og styðji strákana.