Stefnt að því að leggja nýja gervigrasið í næstu viku

Undanfarnar vikur hefur öflugur hópur starfsmanna lagt lokahönd á upphitaðan gervigrasvöll á Þórssvæðinu.

Um er að ræða svæðið Ásinn, austan við aðalvöllinn. Þar er verið að byggja knattspyrnuvöll í fullri stærð (105 x 68 m) með flóðlýsingu og 35 x 80 metra æfingasvæði. Samhliða mun rísa 500 manna áhorfendastúka austan við völlinn.

Stúkan er þegar komin til landsins og verður sett upp á skömmum tíma eftir að völlurinn er tilbúinn.

Reimar Helgason framkvæmdastjóri segir að framkvæmdum miði vel. „Veðurguðinn er loksins okkur hliðhollur. Við klárum að leggja púðann um næstu helgi og stefnum á að byrja að leggja grasið mánudaginn 29. september. Eftir þessa viku þurfum við um tveggja vikna glugga til að ljúka bæði púða og graslagningu.“

Reimar tók myndir af svæðinu í gær, þar sem enginn annar en Kiddi Lór leit við til að ganga úr skugga um að allt væri á réttri leið.