Undirskriftir hjá Þór/KA

Þessar undirrituðu samninga við Þór/KA í dag. Frá vinstri: Kolfinna Eik Elínardóttir, Amalía Árnadót…
Þessar undirrituðu samninga við Þór/KA í dag. Frá vinstri: Kolfinna Eik Elínardóttir, Amalía Árnadóttir, Sonja Björg Sigurðardóttir, Bríet Jóhannsdóttir og Emelía Ósk Kruger.

Fimm ungar knattspyrnukonur á aldrinum 16-17 ára hafa undirritað sína fyrstu leikmannasamninga við Þór/KA eða eru að endurnýja samninga sem voru runnir út. Þessar undirskriftir sem nú hafa farið fram sýna vel þann mikla efnivið og þann fjölda af góðum leikmönnum sem koma upp úr starfi yngri flokka félaganna á hverju einasta ári.

Nokkrar af þeim sem nú undirrita samninga voru lykilmenn í liði 3. flokks Þórs/KA þegar liðið vann Íslands- og bikarmeistaratitla í fyrra. Að sama skapi eru þær einnig orðnar lykilmenn í liði Þórs/KA/Völsungs í 2. flokki U20 á yngsta ári í flokknum, en liðið er á toppi A-deildarinnar þegar mótið er hálfnað.

Mikilvægar nú þegar

Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, var í sömu sporum og þessar ungu og efnilegu knattspyrnukonur fyrir fáeinum árum, þegar hún skrifaði undir sinn fyrsta samning um áramótin 2012-2013, þá tæplega 18 ára. Hún er ekki í vafa um mikilvægi þessara leikmanna, ekki aðeins í framtíðinni heldur einnig í liðinu í dag. „Það eru frábærar fréttir fyrir okkur Akureyringa að þessar bráðefnilegu stelpur séu að skrifa undir. Þær eru ekki einungis mikilvægar framtíð Þórs/KA, heldur einnig mikilvægur hluti af leikmannahópnum hjá Þór/KA nú þegar. Þær hafa komið sterkar inn í leikina okkar í sumar og eru búnar að sýna að þær eru klárar í deild þeirra bestu,“ segir Sandra María.


Að lokinni undirritun í dag. Frá vinstri: Kristín Elva Viðarsdóttir, úr stjórn Þórs/KA, Kolfinna Eik Elínardóttir, Amalía Árnadóttir, Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, Sonja Björg Sigurðardóttir, Bríet Jóhannsdóttir, Emelía Ósk Kruger, Steinunn Heba Finnsdóttir, úr stjórn Þórs/KA, og Pétur Heiðar Kristjánsson, aðstoðarþjálfari meistaraflokks og þjálfari 2. flokks U20.

Þær sem núna hafa undirritað sína fyrstu samninga við Þór/KA eru Bríet Jóhannsdóttir (2006), Emelía Ósk Kruger (2006) og Kolfinna Eik Elínardóttir (2007), en auk þeirra skrifuðu Amalía Árnadóttir (2006) og Sonja Björg Sigurðardóttir (2006) undir nýja samninga við félagið. Amalía og Sonja Björg skrifuðu fyrst undir samninga við félagið í apríl í fyrra og voru síðan lánaðar til Völsungs.

Höfum mikla trú á verkefninu

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, segir þessar undirskriftir mikilvægar fyrir félagið og leikmennina sjálfa. „Margar ungar og mjög efnilegar knattspyrnukonur hafa komið við sögu í leikjum okkar í Bestu deildinni í sumar. Við höfum mikla trú á hæfileikum þeirra og getu og þær hafa unnið sér inn þessi tækifæri með Þór/KA,“ segir Jóhann Kristinn um þessa ungu leikmenn.

„Við höfum líka mikla trú á því sem við erum að gera hjá Þór/KA sem félagi, alveg frá 3. flokki og upp í meistaraflokk. Það er mikils virði upp á framtíðina að þær fái þessi tækifæri, finni að við treystum þeim og ætlum þeim stærri hlutverk í framtíðinni. Við hjá Þór/KA erum að vinna eftir ákveðinni framtíðarsýn í þessum efnum og trúum á það verkefni. Það er örugglega ekki algengt að félag í fremstu röð á landinu tefli fram jafn mörgum heimaöldum leikmönnum og við gerum hjá Þór/KA. Af því erum við stolt og ætlum að halda áfram á þessari braut. Við viljum líka sýna fólkinu okkar hér fyrir norðan og um allt land, fólkinu sem styður við bakið á okkur, samstarfsfyrirtækjunum og okkur sjálfum að okkur er alvara með það að vilja eiga lið í fremstu röð og festa okkur í sessi í toppbaráttu í Bestu deildinni.“

Fjórar fæddar 2006, ein 2007

Amalía Árnadóttir (2006)

Amalía hefur spilað sem miðjumaður og framherji og á nú þegar að baki 12 leiki í Bestu deildinni á þessu tímabili. Amalía spilaði fyrri hluta tímabilsins 2022 á lánssamningi hjá Völsungi, en kom síðan fyrst við sögu með Þór/KA í Bestu deildinni í vor. Hún spilaði tíu leiki með Völsungi í deild, bikar og Lengjubikar í fyrra og hefur nú þegar á þessu ári komið við sögu í 20 leikjum með Þór/KA á þessu ári í Bestu deildinni, Mjólkurbikarnum og Lengjubikarnum. Hún hefur komið við sögu í öllum 12 leikjum Þórs/KA í Bestu deildinni í sumar. Samtals á Amalía að baki 42 leiki í meistaraflokki.

Bríet Jóhannsdóttir (2006)

Bríet hefur aðallega spilað sem kantmaður, en hún kom í fyrsta skipti við sögu í leik í Bestu deildinni í lok júní, en hún var þá að koma til baka eftir meiðsli sem hún hlaut í vor. Bríet hefur þrisvar komið inn á sem varamaður í leikjum liðsins í Bestu deildinni og á nú að baki níu meistaraflokksleiki, en fyrstu leikir hennar með Þór/KA voru í Lengjubikarnum í vetur. Bríet hefur að auki spilað níu leiki og skorað fjögur mörk fyrir Þór/KA í Kjarnafæðismótinu.

Emelía Ósk Kruger (2006)

Emelía Ósk spilar á miðjunni og hefur komið við sögu í sjö leikjum liðsins í Bestu deildinni í sumar. Hún á nú þegar að baki 13 meistaraflokksleiki í Bestu deildinni, Mjólkurbikarnum og Lengjubikarnum. Emelía Ósk hefur verið lánuð tímabundið til liðs Völsungs á Húsavík og mun þar öðlast dýrmæta reynslu í leikjum í 2. deildinni.

Sonja Björg Sigurðardóttir (2006)

Sonja Björg spilar í framlínunni og skrifaði undir sinn fyrsta samning við Þór/KA í fyrravor og lék á lánssamningi með Völsungi í 2. deildinni við mjög góðan orðstír. Hún var á meðal markahæstu leikmanna í 2. deildinni í fyrrasumar, skoraði 11 mörk í deildarkeppninni og var markahæst í liði Völsungs. Sonja Björg á að baki 33 leiki í meistaraflokki og hefur skorað í þeim 16 mörk. Hún hefur ekki komið við sögu í leikjum liðsins í Bestu deildinni enn sem komið er. Hún hefur verið að stríða við meiðsli sem hafa hamlað mjög þátttöku hennar á þessu ári.

Kolfinna Eik Elínardóttir (2007)

Kolfinna Eik hefur spilað sem miðvörður og þrisvar komið við sögu í leikjum í Bestu deildinni í sumar, í fyrsta skiptið í byrjun maí. Hún á að baki sex leiki í meistaraflokki, þar af þrjá í Bestu deildinni og þrjá í Lengjubikar, auk sex leikja með U16 landsliði Íslands.