Körfubolti: Síðasti deildarleikur kvennaliðsins

Þór og Valur mætast í lokaumferð Subway-deildar kvenna í körfubolta í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld kl. 19:15.

Þór og Valur berjast um 6. sætið í deildinni, eða efsta sætið í B-hluta Subway-deildarinnar. Eins og áður hefur komið fram hér fara liðin fimm í A-hlutanum og þrjú efstu lið í B-hlutanum áfram í hefðbundna átta liða úrslitakeppni eftir að keppni í deildinni lýkur. Liðin í 6. og 7. sæti mæta liðunum í 2. og 3. sæti. Þetta eru annars vegar Þór og Valur og hins vegar Grindavík og Njarðvík, bara spurning hver mætir hverjum. 

Átta liða úrslitin hefjast í næstu viku og klárt að Þórsliðið byrjar á útileik þar sem stelpurnar mæta liði sem er ofar í töflunni, hvort sem það verður Grindavík eða Njarðvík. Fyrsti heimaleikur er svo á dagskrá um aðra helgi, en ekki kominn staðfest tímasetning á hann. Vinna þarf þrjá leiki til að fara áfram í undanúrslit.

Leikurinn í kvöld er fyrsti heimaleikur liðsins eftir bikarævintýrið og kjörið tækifæri til að mæta og njóta þess að horfa á og hvetja þetta skemmtilega lið. Stelpurnar voru hylltar í leikhléi í karlaleik á dögunum, en nú stíga þær sjálfar út á gólfið og eiga skilið að fá alvöru stuðning gegn Íslandsmeisturunum.