Níu úr Þór/KA á landsliðsæfingar U16 og U17

Níu ungar knattspyrnukonur úr okkar röðum hafa verið valdar til æfinga með U17 og U16 landsliðum Íslands, en hóparnir koma saman 8.-10. september á heimavelli Þróttar í Laugardalnum.

Aldís Ylfa Heimisdóttir, landsliðsþjálfari U17 hefur valið 32 stúlkur til æfinga með U17 á heimavelli Þróttar í Laugardalnum 8.-10. september. Þar á meðal eru Aníta Ingvarsdóttir, Bríet Fjóla Bjarnadóttir, Júlía Karen Magnúsdóttir og Karen Hulda Hrafnsdóttir. Þær Aníta, Júlía Karen og Karen Hulda hafa spilað bæði með U16 og U20 liðunum okkar og meistaraflokki Dalvíkur í 2. deildinni, en Bríet Fjóla hefur verið fastamaður í meistaraflokkshópnum hjá Þór/KA og hefur nú þegar skorað tvö mörk í Bestu deildinni.

 

Aldís Ylfa er einnig landsliðsþjálfari U16 og hefur valið 32 stúlkur sem koma saman til æfinga á heimavelli Þróttar í Laugardalnum sömu daga og U17 hópurinn. Þar eru fimm úr okkar röðum, tvær sem skráðar eru í Dalvík, Ásta Ninna Reynisdóttir og Hafdís Nína Elmarsdóttir, og hafa ýmist spilað með U16 og U20 liðum okkar og svo meistaraflokki Dalvíkur í 2. deildinni í sumar. Þrjár að auki eru í Þór/KA, þær Guðrún Lára Atladóttir, Halldóra Ósk Gunnlaugsdóttir Briem og Sigyn Elmarsdóttir, og því samtals fimm héðan af svæðinu sem eru í æfingahópi U16 landsliðsins.

 

Óskum okkar stelpum til hamingju með valið og góðs gengis á landsliðsæfingunum.