27 marka sveifla á milli leikja og KA/Þór úr leik

Matea Lonac náði ekki sama takti í leiknum í dag eins og á sumardaginn fyrsta, ekki fremur en aðrir …
Matea Lonac náði ekki sama takti í leiknum í dag eins og á sumardaginn fyrsta, ekki fremur en aðrir leikmenn KA/Þórs. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.

Ellefu marka tap í Garðabænum í oddaleik í úrslitakeppni Olísdeildarinnar. KA/Þór hefur lokið keppni, en Stjarnan fer áfram í undanúrslit.

Það vakti athygli hvernig KA/Þór rótburstaði Stjörnuna þó svo einn besti leikmaður deildarinnar, Rut Jónsdóttir, væri ekki með í leik tvö á Akureyri á fimmtudag. Þá var fullyrt að hún yrði með í dag, sem varð svo ekki raunin. Að öðrum ólöstuðum var það markvörðuinn Matea Lonac sem lagði grunninn að stórsigrinum fyrir norðan með frábærri frammistöðu í markinu – en auðvitað með góða vörn fyrir framan sig. Viðsnúningurinn var síðan nánast algjör í oddaleik liðanna í Garðabænum núna í dag. 

Stjarnan var skrefinu – eða fetinu – á undan allan fyrri hálfleikinn, aðeins ofar í flestum eða öllum tölfræðiþáttum. Þær skoruðu þrjú fyrstu mörk leiksins og héldu eins til þriggja marka forystu allan fyrri hálfleikinn, juku hana reyndar í fjögur mörk skömmu fyrir leikhléið. Staðan í leikhléi: 14-10. Munur sem hægt er að vinna upp með góðum leik, en því miður kom sá kafli aldrei í leiknum hjá KA/Þór.

Upphaf seinni hálfleiksins gerði eiginlega út um vonir KA/Þórs til að komast inn í leikinn og ná fram sigri því á um tíu mínútum náði Stjarnan að auka muninn í átta mörk, 22-14. Stjarnan hafði síðan áfram góð tök á leiknum og vann að lokum 11 marka sigur, 33-22.

KA/Þór hefur því lokið keppni á Íslandsmótinu þetta árið. Liðið endaði í 6. sæti deildarinnar og mætti Stjörnunni sem endaði í 3. sæti. Stjarnan vann fyrsta leikinn með 24-19, KA/Þór vann stórsigur í öðrum leik, 34-18, en sveiflan varð síðan 27 mörk á milli leikja og Stjarnan vann 33-22 í dag og þar með 2-1 í einvíginu.

Tölurnar

KA/Þór
Mörk: Ida Hoberg 8, Lydía Gunnþórsdóttir 4, Nathalia Soares 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Aþena Einvarðsdóttir 2, Anna Mary Jónsdóttir 1, Kristín A. Jóhannesdóttir 1, Hildur Lilja Jónsdóttir 1, Sunna Katrín Hreinsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 14 (31,8%).

Stjarnan
Mörk: Helena Rut Örvarsdóttir 7, Lena Margrét Valdimarsdóttir 5, Anna Karen Hansdóttir 5, Eva Björk Davíðsdóttir 3, Hanna Guðrún Hauksdóttir 3, Stefanía Theodórsdóttir 3, Britney Cots 2, Anita Theodórsdóttir 2, Elísabet Gunnarsdóttir 1, Anna Lára Davíðsdóttir 1, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 16 (50%), Elísabet Millý Elíasardóttir 1 (14,3%).

Tölfræðin á hbstatz.is.