Halldór Örn og Brynjar Hólm stýra Þórsliðinu næsta vetur

Halldór Örn Tryggvason þjálfari, Viðar Ernir Reimarsson, Kristján Páll Steinsson og Brynjar Hólm Gré…
Halldór Örn Tryggvason þjálfari, Viðar Ernir Reimarsson, Kristján Páll Steinsson og Brynjar Hólm Grétarsson, nýr aðstoðarþjálfari handknattleiksliðs Þórs.

Handknattleiksdeild Þórs hefur samið við Halldór Örn Tryggvason um að hann verði þjálfari Þórsliðsins í Grill 66 deildinni á næsta tímabili. Brynjar Hólm Grétarsson snýr aftur heim og verður spilandi aðstoðarþjálfari.

Handboltapenninn var á lofti í Hamri í morgun þegar tveir ungir leikmenn endurnýjuðu samninga sína við handknattleiksdeild Þórs, einn Þórsari sneri aftur heim eftir þriggja ára fjarveru til að spila og þjálfa og þjálfari endurnýjaði samning eftir að hafa verið í fæðingarorlofi.

Árni Rúnar Jóhannesson, formaður handknattleiksdeildar Þórs, kveðst ánægður með þessar ráðningar sem staðfestar voru í morgun. „Við höldum áfram með uppbyggingarstarfið sem við höfum verið í að undanförnu og horfum þá bæði til þess að þróa áfram okkar ungu leikmenn, en líka að fá heim reynda Þórsara sem hafa verið að spila annars staðar,“ segir Árni.


Rautt og hvítt í Hamri í morgun, stjórnarfólk, leikmenn og þjálfarar að loknum undirskriftum. Frá vinstri: Helga Lyngdal Þorsteinsdóttir, Halldór Örn Tryggvason, Sara Hrönn Viðarsdóttir, Viðar Ernir Reimarsson, Árni Rúnar Jóhannesson, Brynjar Hólm Grétarsson, Kristján Gylfason og Kristján Páll Steinsson.

-

Halldór Örn Tryggvason snýr til baka sem aðalþjálfari Þórsliðsins og hefur nú skrifað undir samning til næstu tveggja ára eftir að hafa verið í fæðingarorlofi. Hann var síðast aðstoðarþjálfari þegar Stevce Alusovski þjálfaði liðið, en hafði tvö ár þar á undan stýrt Þórsliðinu, bæði í Olísdeildinni og Grill 66 deildinni. Halldór Örn hefur þar að auki þjálfað yngri flokka félagsins og var einnig um tíma þjálfari ungmennaliðs Akureyrar handboltafélags.

Brynjar Hólm Grétarsson (1994) snýr nú aftur heim til Akureyrar eftir þriggja ára fjarveru, en hefur leikið með Stjörnunni þrjú síðustu tímabil. Þar áður spilaði hann með Þór og Akureyri handboltafélagi og var meðal annars valinn handboltamaður ársins hjá AHF 2017. Brynjar er öflugur leikmaður, bæði í vörn og sókn, og ekki síður leiðtogi inni á vellinum og utan hans. Hann verður aðstoðarþjálfari Halldórs ásamt því að spila með liðinu. Hann var meðal annars þjálfari hjá yngri flokkum Þórs og þjálfaði þá meðal annarra nokkra af þeim sem núna eru í liði meistaraflokks.

Kristján Páll Steinsson (2002) er efnilegur markvörður sem hefur átt góðar innkomur í leikjum Þórsliðsins í vetur og farið vaxandi með hverju tækifærinu. Hann endurnýjar nú samning sinn við félagið og semur til tveggja ára.

Viðar Ernir Reimarsson (2004) hefur þrátt fyrir ungan aldur vakið athygli sem öflugur leikmaður í skyttustöðunni vinstra megin og meðal annars verið fastamaður í yngri landsliðum Íslands. Hann hefur verið óheppinn með meiðsli og missti af mörgum leikjum á nýliðnu tímabili. Viðar Ernir endurnýjar samning sinn við félagið til næstu tveggja ára.


Árni Jóhannesson, formaður handknattleiksdeildar, og Halldór Örn Tryggvason þjálfari.

Árni Rúnar Jóhannesson og Brynjar Hólm Grétarsson, nýr aðstoðarþjálfari Þórsliðsins og leikmaður liðsins að nýju.


Árni Rúnar Jóhannesson og Kristján Páll Steinsson markvörður.


Árni Rúnar Jóhannesson og Viðar Ernir Reimarsson handsala samninginn.