Handbolti: Afturelding sendi KA/Þór í botnsætið

KA/Þór vermir botnsæti Olísdeildarinnar í handbolta eftir tíu marka tap fyrir Aftureldingu í kvöld.

Leikurinn var í járnum lengst af fyrri hálfleik, en Afturelding þó meira með forystuna, 1-2 mörk, en bættu svo í á lokamínútum fyrri hálfleiks og náðu fjögurra marka forystu, staðan 10-6 í leikhléi. KA/Þór náði aldrei alveg í skottið á Mosfellingum eftir þetta. Munurinn var um tíma þrjú mörk í seinni hálfleiknum, en eins og í þeim fyrri juku heimakonur muninn aftur þegar leið á hálfleikinn og náðu mest tíu marka forystu þegar innan við tíu mínútur voru eftir og lokatölurnar 23-13.

Afturelding - KA/Þór 23-13 (10-6)

Tölfræði leiksins (hbstatz.is)

Með þessum úrslitum fór Afturelding úr botnsætinu og skildi KA/Þór þar eftir, en Stjarnan tapaði einnig sínum leik og liðin því áfram jöfn með fimm stig á meðan Mosfellingar fóru í sex stig og upp í 6. sætið með sex stig. Sannarlega ekki góð staða. Hvíldin verður stutt, næsti leikur strax á laugardag þegar KA/Þór tekur á móti Fram.

Helstu tölur

Afturelding
Mörk: Susan Ines Gamboa 6, Ragnhildur Hjartardóttir 6, Katrín Helga Davíðsdóttir 3, Sylvía Björt Blöndal 2, Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 2, Hrafnhildur Hólm Guðnadóttir 2, Anna Katrín Bjarkadóttir 1, Hildur Lilja Jónsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 12 (48%).
Refsingar: 8 mínútur.

KA/Þór
Mörk: Lydía Gunnþórsdóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 3, Nathalia Soares Baliana 2, Rafaele Nascimento Fraga 1, Telma Lísa Elmarsdóttir 1, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 1, Hildur Magnea Valgeirsdóttir 1, Bríet Kolbrún Hinriksdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 12 (34,3%).
Refsingar: 2 mínútur.

Næst

  • Mót: Olísdeildin
  • Leikur: KA/Þór - Fram
  • Staður: KA-heimili
  • Dagur: Laugardagur 20. janúar 
  • Tími: 15:00