Handbolti: Mikilvægur heimaleikur hjá KA/Þór

KA/Þór tekur á móti liði ÍR í tíundu umferð Olísdeildar kvenna í handbolta í kvöld.

Hér er um mikilvægan leik að ræða hjá stelpunum, gegn liði sem er sæti ofar en þær í deildinni. ÍR er í 5. sæti deildarinnar með átta stig, hefur unnið fjóra leiki, en tapað fimm. KA/Þór er þremur stigum á eftir ÍR, situr í 6. sætinu með fimm stig, hefur unnið tvo leiki, gert eitt jafntefli og tapað sex. Það eru því gríðarlega mikilvæg stig sem liðin munu bítast um í kvöld.

Þessi lið mættust á heimavelli ÍR í 3. umferðinni í lok september og þá höfðu ÍR-ingar betur, 25-22. ÍR-ingar hafa auk þess leiks unnið Aftureldingu í tvígang og Stjörnuna. Sigurleikir KA/Þórs eru gegn Aftureldingu og Fram, en liðið gerði jafntefli við Stjörnuna.

Allir leikir Olísdeildarinnar eru sýndir beint á handboltarásum Sjónvarps Símans.

  • Deild: Olísdeild kvenna
  • Leikur: KA/Þór - ÍR
  • Staður: KA-heimilið
  • Dagur: Fimmtudagur 16. nóvember
  • Tími: 18:00