Handbolti: Ögurstund hjá KA/Þór

KA/Þór tekur á móti Stjörnunni í Olísdeild kvenna í handbolta í dag kl. 16:30. Leikurinn er gríðarlega mikivægur fyrir bæði lið í botnbaráttu deildarinnar og því væntanlega hart barist um stigin. Góð mæting og stuðningur við stelpurnar getur skipt sköpum í þeirri baráttu.

KA/Þór hefur verið í brasi lengst af í vetur eins og komið hefur fram í umfjöllun hér á vefnum. Ungir leikmenn hafa þurft að axla ábyrgð vegna fjarveru leikmanna sem hafa meiðst eða eru í barnsburðarleyfi. Þau tíðindi urðu þó í síðasta leik KA/Þórs að Hulda Bryndís Tryggvadóttir var mætt til leiks aftur eftir barnsburðarleyfi og Martha Hermannsdóttir hafði tekið fram klístrið að nýju eftir tæplega tveggja ára hlé.

KA/Þór og Stjarnan hafa mæst tvisvar í deildinni í vetur. Liðin gerðu jafntefli á Akureyri í lok september, 24-24, en Stjarnan vann fimm marka sigur í Garðabænum í byrjun janúar, 24-19. Fyrir leikinn í dag er KA/Þór í 8. sæti deildarinnar með fimm stig, en Stjarnan í 6. sæti með sjö stig.

  • Mót: Olísdeild kvenna
  • Leikur: KA/Þór - Stjarnan
  • Staður: KA-heimili
  • Dagur: Laugardagur 17. febrúar
  • Tími: 16:30
  • Útsending: Handboltarás Sjónvarps Símans