Handbolti: Þórsarar á leið til Ísafjarðar

Þór sækir Hörð heim til Ísafjarðar í Grill 66 deild karla í handbolta í dag.

Fyrirleikinn eru liðin í 2. og 5. sæti deildarinnar. Þórsarar eru með 18 stig eftir 13 leiki, en Ísfirðingar með 12 stig úr 12 leikjum. Þórsarar unnu öruggan átta marka sigur þegar liðin mættust á Akureyri í október, 33-25.

Það styttist í að dragi til tíðinda í toppbaráttunni í Grill 66 deildinni, en flest liðin eiga núna eftir fimm eða sex leiki. Eins og áður hefur komið fram hér eru aðeins fjögur lið í deildinni sem eiga möguleika á að fara upp í Olísdeildina því öll önnur lið eru ungmennalið frá félögum sem nú þegar eru með lið í Olísdeildinni.

Þórsarar eru efstir þessara fjögurra liða, en Fjölnir og ÍR eru aðeins stigi á eftir Þórsurum. ÍR á leik til góða á hin tvö liðin. Hörður kemur svo nokkuð á eftir þessum þremur liðum. Efsta liðið af þessum fjórum fer beint upp í Olísdeildina, en hin þrjú leika til úrslita um annað laust sæti. 

  • Mót: Grill 66 deild karla
  • Leikur: Hörður - Þór
  • Staður: Ísafjörður
  • Dagur: Laugardagur 17. febrúar
  • Tími: 16:00
  • Útsending: Handboltarás Sjónvarps Símans