Handbolti: Tómas varði og varði og Þór vann KA

Þór vann ungmennalið KA í Grill 66 deildinni í dag. Lokatölur urðu 35-31. Tómas Ingi Gunnarsson varði 45% skota sem komu á markið.

Þórsarar náðu þriggja marka forskoti þegar um tíu mínútur voru liðnar af leiknum og héldu frumkvæðinu, en gestirnir jöfnuðu í 8-8 og 10-10. Þórsarar hleyptu þeim ekki fram úr sér heldur náðu tveggja til þriggja marka forskoti og staðan 16-13 í leikhléi. Þórsarar juku forskotið í seinni hálfleiknum og náðu mest sjö marka forystu, 29-22 þegar um 12 mínútur voru til leiksloka, en gestirnir klóruðu aðeins í bakkann og fjórum mörkum munaði þegar leik lauk.

Þór - K.A.U. 35-31 (16-13)

Um þennan leik er ekki hægt að skrifa öðruvísi en að minnast á þátt Tómasar Inga Gunnarssonar í markinu. Hann varði samtals 24 skot eða 45,6% þeirra skota sem hann fékk á sig. Markverðir Þórsara vörðu samtals 26 skot á móti 13 skotum hjá markvörðum gestanna.

Tölurnar

Þór
Mörk: Aron Hólm Kristjánsson 9, Brynjar Hólm Grétarsson 6, Sigurður Ringsted Sigurðsson 6, Jón Ólafur Þorsteinsson 5, Garðar Már Jónsson 2, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Sveinn Aron Sveinsson 2, Þormar Sigurðsson 2, Friðrik Svavarsson 1. 
Varin skot: Tómas Ingi Gunnarsson 24, Kristján Páll Steinsson 2 (45,6%).
Refsingar: 14 mínútur

KA U
Mörk: Arnór Ísak Haddsson 11, Dagur Árni Heimisson 7, Jónsteinn Helgi Þórsson 5, Logi Gautason 4, Magnús Dagur Jónatansson 2, Leó Friðriksson 1, Jóhann Bjarki Hauksson 1, 
Varin skot: Óskar Þórarinsson 11, Úlfar Örn Guðbjargarson 2 (27,1%).
Refsingar: 6 mínútur

Leikskýrslan (hsi.is)
Tölfræðin (hbstatz.is)

Með sigrinum fór Þór upp í 2. sæti Grill 66 deildarinnar því á sama tíma gerði Fjölnir jafntefli við ungmennalið HK. Ungmennalið Fram heldur hins vegar áfram sigurgöngunni og er á toppnum með 20 stig eftir 11 leiki. Þór er með 15 stig, einnig eftir 11 leiki. Þórsarar eru í raun komnir í efsta sætið því ungmennaliðin í deildinni geta ekki farið upp um deild. Verði ungmennalið Fram áfram á toppnum er það 2. sætið sem gefur beint sæti í Olísdeildinni á næsta tímabili. Enn eiga liðin þó eftir að leika 7-8 leiki og ýmislegt sem gæti breyst á þeim tíma.