Olísdeildin: Oddaleikur í Garðabænum í dag

Lydía Gunnþórsdóttir skorar í leiknum gegn Stjörnunni á fimmtudaginn. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Ak…
Lydía Gunnþórsdóttir skorar í leiknum gegn Stjörnunni á fimmtudaginn. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.

KA/Þór mætir liði Stjörnunnar í oddaleik í úrslitakeppni Olísdeildar kvenna í handbolta í dag kl. 16.

Sigurliðið í þessu einvígi fer áfram í undanúrslit, en tvö efstu lið deildarinnar, ÍBV og Valur, bíða í þessari umferð. Haukar hafa þegar tryggt sér sæti í undanúrslitum með því að slá út Íslandsmeistara Fram og takast næst á við deildarmeistara ÍBV. Í dag ræðst það hvort það verður KA/Þór eða Stjarnan sem mætir Val í undanúrslitum.

Stjarnan vann fyrsta leikinn gegn KA/Þór í Garðabænum með fimm marka mun, en KA/Þór svaraði með stórkostlegri frammistöðu í öðrum leiknum sem fram fór á Akureyri á fimmtudaginn, unnu þá með 16 marka mun.

Það er því sannarlega óhætt að mæla með því að Akureyringar syðra fjölmenni í Garðabæinn því þar eigum við von á góðri skemmtun í dag - og stuðningurinn getur eins og áður skipt öllu máli.