Pílukast: Landsliðsæfingar á Akureyri

Pétur Rúðrik Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í pílukasti, sótti pílufólk á Akureyri heim um helgina og var með æfingar fyrir úrtakshóp landsliðsins í pílukasti áður en endanlegt val á þeim átta körlum og fjórum konum sem keppa munu fyrir Íslands hönd á Norðurlandamótinu í vor fer fram. 

Pétur valdi samtals 44 pílukastara í úrtakshóp, 28 karla og 16 konur, þar af tvær konur og fimm karla úr píludeild Þórs, fyrir næsta verkefni landsliðsins, sem er Norðurlandamót WDF. Mótið verður haldið á Íslandi 23.-25. maí. Pétur hefur heimsótt aðildarfélög ÍPS og kynnt sig og hvernig hann mun vinna að þjálfun hópsins fyrir komandi verkefni, ásamt framtíðarsýn hans fyrir landslið Íslands. Hann hefur haldið æfingahelgar fyrir sunnan og er nú kominn norður til að vinna með okkar fólki og fólki annars staðar að af landinu sem mætti norður um helgina. Í kjölfarið mun hann síðan velja endanlega þá átta karlmenn og þær fjórar konur sem taka munu þátt fyrir Íslands hönd á Norðurlandamótinu.

Eftirtalin eru í úrtakshópnum frá píludeild Þórs í æfingahópnum:

  • Kolbrún Gígja Einarsdóttir
  • Ólöf Heiða Óskarsdóttir

  • Garðar Gísli Þórisson
  • Sigurður Brynjar Þórisson
  • Óskar Jónasson
  • Valþór Atli Birgisson
  • Viðar Valdimarsson