Pílukast: Sjö Þórsarar í úrtakshóp fyrir Norðurlandamót

Pétur Rúðrik Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í pílukasti, hefur valið 44 manna úrtakshóp, 28 karla og 16 konur, fyrir næsta landsliðsverkefni Íslands sem er Norðurlandamót WDF, en mótið fer fram á Íslandi 23.-25. maí. 

Í þessum hópi eru tvær konur og fimm karlar frá píludeild Þórs. Í frétt á vef Íslenska pílukastsambandsins  er sagt frá því að Pétur Rúðrik hafi ferðast um landið undanfarnar vikur og heimsótt aðildarfélög ÍPS þar sem hann notaði tækifærið og kynnti sjálfan sig og hvernig hann mun koma að þjálfun hópsins fyrir komandi verkefni, ásamt framtíðarsýn fyrir landslið Íslands. Hann lætur ekki þar við sitja heldur verður hann með landsliðsæfingar í aðstöðunni hjá píludeild Þórs 2. og 3. febrúar. 

Píludeild Þórs á næstflesta karla í hópnum, en Grindvíkingar eiga flesta fulltrúa í hópnum, bæði konur og karla.

Fulltrúar frá píludeild Þórs í úrtakshópnum:

    • Kolbrún Gígja Einarsdóttir
    • Ólöf Heiða Óskarsdóttir
    • Garðar Gísli Þórisson
    • Sigurður Brynjar Þórisson
    • Óskar Jónasson
    • Valþór Atli Birgisson
    • Viðar Valdimarsson