Pílukast: Viðar og Óskar í góðum gír í morgun

Óskar Jónasson og Viðar Valdimarsson voru í mun betra stuði í dag en fyrstu tvo dagana í Þýskalandi.…
Óskar Jónasson og Viðar Valdimarsson voru í mun betra stuði í dag en fyrstu tvo dagana í Þýskalandi. Viðar komst áfram í 2. umferð í dag og Óskar var hársbreidd frá sigri gegn sterkum sænskum keppanda.

Okkar menn í pílukastinu voru í eldlínunni í morgun og stóðu sig mun betur en fyrstu tvo dagana. Viðar Valdimarsson vann sinn leik og komst í aðra umferð. Óskar Jónasson var hársbreidd frá því að vinna sænskan pílukastara sem keppti á HM í pílukasti í desember.

Viðar hóf daginn á því að vinna öruggan 5-1 sigur á belgíska pílukastaranum Stijn Vekemans. Viðar vann þrjá fyrstu leggina áður en sá belgíski komst á blað, en Viðar lét það ekki trufla sig og bætti við tveimur leggjum í viðbót og vann leikinn. Hann var þar með kominn áfram í næstu umferð, 256 manna úrslit, og mætti þar ofjarli sínum, belgíska pílukastaranum Kevin Lankhuizen, og mátti játa sig sigraðan án þess að ná að vinna legg, en var þó nálægt því í næstsíðasta leggnum. 

Óskar mætti Ally Pally-keppanda

Óskar Jónasson var hársbreidd frá því að vinna einn stærsta sigur íslensks pílukastara í mörg ár þegar hann mætti sænska pílukastaranum Jeffrey De Graaf. Sá sænski var á meðal keppenda á Heimsmeistarmótinu í pílukasti sem fram fór í Ally Pally-höllinni á Englandi í desember og janúar. Ljóst að Óskar mætti þarna verðugum andstæðingi.

Óskar vann fyrsta legginn, en Svíinn jafnaði í þeim næsta. Þá komu þrír leggir í röð hjá Óskar og hann kominn í kjörstöðu, 4-1, og þurfti aðeins að vinna einn legg í viðbót. Hann var hársbreidd frá því að ná þeim sigri, fékk fimm tækifæri til að skjóta sig út og vinna legginn, en tókst því miður ekki. Sá sænski fann þá einhvern aukagír og snéri leiknum sér í hag, vann næstu fjóra leggi og stal þar með sigrinum af okkar manni. Grátleg niðurstaða eftir annars frábæra frammistöðu. Óskar var með meðaltal upp á 72,09 í leiknum, sem er nokkuð hærra en í leikjum hans í gær og fyrradag.