Körfubolti: Fyrstu bikarmeistararnir á 60 ára afmæli Þórs

Skjáskot úr Íslendingi 19. júní 1975, timarit.is. Bikarmeistarar Þórs í körfubolta 1975. Aftari röð …
Skjáskot úr Íslendingi 19. júní 1975, timarit.is. Bikarmeistarar Þórs í körfubolta 1975. Aftari röð frá vinstri: Steinunn Einarsdóttir, Rósa Þorsteinsdóttir, Ásta Pálmadóttir, Guðrún Hreinsdóttir og Anton Sölvason þjálfari. Fremri röð frá vinstri: María Guðnadóttir, Þórunn Rafnar fyrirliði og Sólveig Gunnarsdóttir. 
- - -

Á meðan Þórsstúlkur dagsins í dag og þjálfarar þeirra huga að leik dagsins, einbeita sér að hugarfari og leikkerfum og sjá fyrir sér bikarlyftingu í leikslok, heldur fréttaritari heimasíðunnar áfram að líta um öxl. Við erum áfram á 8. áratug liðinnar aldar þegar stelpurnar okkar voru bestar. 

Kvennalið Þórs varð Íslandsmeistari 1969 og 1971 undir stjórn Einars Bollasonar. Nokkrum árum síðar var aftur kominn tími á að vinna titla og eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni varð liðið bikarmeistari 1975 og Íslandsmeistari 1976 undir stjórn Antons Sölvasonar. Ásta Pálmadóttir, ein þeirra sem unnu titlana með Þórsliðinu á þessum árum, rifjaði upp í stuttu samtali við fréttaritara að undir stjórn Einars hafi þær spilað í pilsum, máttu æfa í stuttbuxum, en spiluðu í pilsum. 

Í aðdraganda bikarúrslitaleiksins í kvöld hafði heimasíðan samband við nokkrar úr bikarmeistaraliðinu 1975 og klárt að einhverjar þeirra munu mæta á leikinn og styðja liðið til góðra verka.

Ásta Pálmadóttir og María Guðnadóttir bestar

Umfjöllun um bikarúrslitaleikinn 1975 er ekki fyrirferðarmikil í fjölmiðlum á þeim tíma. Við leit á timarit.is rákumst við á stutta, en myndalausa, grein í Alþýðumanninum þar sem fjallað var um leikinn í stuttu máli.

„Best hjá Þór var tvímælalaust Ásta Pálmadóttir og svo María Guðnadóttir,“ skrifar jeg í Alþýðumanninn 15. apríl 1975.

Slök vítahittni kom KR-ingum í koll

Þórunn Rafnar var fyrirliði Þórs sem vann bikarinn 1975. Bikarkeppnin var smærri í sniðum þá en hún er í dag. Þór sat hjá í 1. umferð og vann síðan ÍS (Íþróttafélag stúdenta) í undanúrslitum. KR vann ÍR og UMFS á leið sinni í úrslitaleikinn. Úrslitaleikurinn var spilaður í Íþróttaskemmunni á Akureyri laugardaginn 12. apríl 1975 og hófst hann kl. 16.

Um leikinn sjálfan er skrifað í Alþýðumanninum 15. apríl 1975: „Þriðji aðilinn í leiknum „Taugaspennan“ var allsráðandi frá byrjun og til enda. Þórsstúlkurnar höfðu forystu allan fyrri hálfleikinn. Fyrri helming leiksins spiluðu K. R. stelpurnar „maður á mann“ eða „kona á konu“ vörn, en gáfust svo upp á því. Þórsstúlkurnar gáfu ekkert eftir í vörninni, fengu þær líka dæmd á sig 8 víti, en fengu sjálfar 4 víti. Vítin reyndust þó erfið fyrir K. R., skoruðu aðeins eitt stig af 8 mögulegum. Er kom að hálfleik var staðan orðin 9 gegn 6, Þór í vil.

KR-ingar jöfnuðu síðan í 10-10 og aftur í 16-16. Ásta Pálmadóttir tók til sinna ráða þegar staðan var orðin 10-10 og skoraði öll stig Þórsara eftir það á meðan KR-liðið skoraði sex stig. Staðan var jöfn 16-16, eins og áður sagði, en Þórsarar skoruðu fjögur síðustu stig leiksins og unnu 20-16.

„Sigurinn var sætur“

María Guðnadóttir var lykilmaður í liðinu á þessum tíma, en hún var einnig í fremstu röð í ýmsum greinum frjálsíþrótta. Hún kemur úr Stykkishólmi, en var tímabundið á Akureyri við nám og spilaði þá körfubolta með Þór. María átti fjársjóði í fórum sínum sem hún deildi með okkur og rifjaði stuttlega upp tímann með Þór: „Það var ótrúlegur tími og mikið afrek. Við smöluðum í lið eftir að ég kom norður í MA frá Stykkishólmi. Við vorum of seinar að skrá liðið í Íslandsmótið og ákváðum að skrá okkur í bikarinn. Og fórum alla leið í úrslitin gegn KR. Þetta var mjög spennandi leikur, ekki mikið skorað (enda karlabolti og ekki þriggja stiga lína). KR bjóst ekki við þessari mótstöðu frá litla félaginu og voru frekar daprar í lokin. En sigurinn var sætur og er enn ljóslifandi í minningunni. Eitt sinn Þórsari, ávalt Þórsari,“ segir María Guðnadóttir. 

María er líka með skilaboð til Þórsstelpnanna í dag: „Áfram stelpur, áfram Þór. Síðasti leikur var frábær og spiluðuð þið eins og sannir meistarar. Framtíðin er björt.“

Betra er seint en aldrei!

Hér er blaðaúrklippa úr safninu hennar Maríu. Bikarmeistararnir 1975. Eftir mikla leit fundum við þessa blaðaúrklippu á timarit.is, en það sem ruglaði í ríminu var að fréttin um bikarmeistaratitil sem vannst í apríl birtist í Íslendingi 19. júní! Í frétt Íslendings segir meðal annars: „Hrepptu þær þar með Bikarmeistaratitilinn 1975 og færðu þar með félagi sínu skemmtilega gjöf á 60 ára afmælinu með því að fá nafn þess skráð fyrst allra nafna á hinn nýja bikar.“

Á myndinni eru, aftari röð frá vinstri: Steinunn Einarsdóttir, Rósa Þorsteinsdóttir, Ásta Pálmadóttir, Guðrún Hreindís Hreinsdóttir og Anton Sölvason þjálfari. Fremri röð frá vinstri: María Guðnadóttir, Þórunn Rafnar fyrirliði og Sólveig Gunnarsdóttir. 

Íslandsmeistarar með „einstökum liðsanda“

Við ætlum að teygja okkur aðeins nær nútímanum, frá 1975 alla leið til ársins 1976. Ári eftir bikarmeistaratitilinn vann liðið Íslandsmeistaratitilinn, með lítið breyttu liði. Allar sömu og unnu bikarinn voru með liðinu árið eftir og tvær nýjar bættust í hópinn, Þórný Alda Kristjánsdóttir og Helga Helgadóttir.

Hér er úrklippa úr Íslendingi 1. apríl 1976, af timarit.is. Í ljósi þess hvað einkennir Þórsliðið í dag er gaman að lesa í frétt Íslendings, eftir að liðið varð Íslandsmeistari, að Anton Sölvason þjálfari hafi sagt aðspurður „að þessi árangur hefði náðst fyrir mikinn vilja og áhuga stúlknanna, jafnframt góðri æfingasókn, og síðast en ekki síst með einstökum liðsanda.“ (leturbreyting thorsport).

Þarna eru átta leikmenn á mynd ásamt þjálfaranum, en á mynd sem Skapti Hallgrímsson birti sem  gömlu íþróttamyndina á vefmiðlinum Akureyri.net voru þær níu, Þórsstúlkurnar í Íslandsmeistaraliðinu. Myndin sem birt var á Akureyri.net er tekin í Íþróttaskemmunni á Akureyri. Hér verður einungis giskað á að sú mynd hafi verið tekin eftir að liðið kom heim með Íslandsbikarinn og að Helga Helgadóttir, sem þar er á mynd, en ekki þessari hér að ofan, hafi ekki verið með liðinu í síðustu suðurferð Íslandsmótsins þegar þær fengu Íslandsbikarinn afhentan. Glöggur lesandi benti einnig á að á litmyndinni á Akureyri.net eru stúlkurnar í treyjum með Volvo-auglýsingu, sem ekki er sjáanleg á hinni myndinni. 

Frá vinstri: Anton Sölvason þjálfari, Sólveig Gunnarsdóttir, Harpa Sigurðardóttir, Magnea Friðriksdóttir, Guðrún Hreindís Hreinsdóttir, Þórunn Rafnar fyrirliði, María Guðnadóttir, Þórný Alda Kristjánsdóttir og Ásta Pálmadóttir. Úr úrklippusafni Maríu Guðnadóttur.

Eins og kom fram í greininni á Akureyri.net kom fjárskortur í veg fyrir að liðið tæki þátt í báðum keppnunum, Íslandsmóti og bikarkeppni. Þær völdu bikarkeppnina 1975 og unnu hana, síðan Íslandsmótið árið eftir og unnu það. Það kemur líka fram í fréttinni úr Íslendingi hér ofar að fjárhagurinn hafi lagast, en þá hafi verið orðið of seint að sækja um þátttöku í bikarkeppninni og að KKÍ hafi ekki tekið í mál að hliðra til fyrir Þór.

Eigum við ekki að segja að þær hefðu unnið tvöfalt bæði árin ... bara ef ... ?

Fyrri greinar