Á sigurbraut í jólafrí - Skötuveisla og firmamót um jólin

Markaskorarar gærkvöldsins.
Frá vinstri: Atli Þór, Sigfús Fannar og Sverrir Páll.
Markaskorarar gærkvöldsins.
Frá vinstri: Atli Þór, Sigfús Fannar og Sverrir Páll.

Í gærkvöldi lék meistaraflokkur karla í fótbolta sinn síðasta leik á árinu þegar aðallið Þórs og KA áttust við í æfingaleik í Boganum en bæði lið eru með fullt hús stiga í Kjarnafæðimótinu sem fór af stað fyrr í mánuðinum.

Okkar menn unnu góðan 3-1 sigur þar sem Sigfús Fannar Gunnarsson, Sverrir Páll Ingason og Atli Þór Sindrason komu Þór í 3-0 áður en Elfar Árni Aðalsteinsson minnkaði muninn fyrir KA.

Strákarnir taka sér nú stutt jólafrí frá æfingum og mæta aftur til æfinga strax á nýju ári þar sem Kjarnafæðimótið heldur áfram í janúar áður en Lengjubikarinn hefst í febrúar.

Í jólafríinu verða tveir viðburðir á vegum meistaraflokksins sem við hvetjum alla Þórsara til að fjölmenna á og styðja um leið við bakið á strákunum fyrir baráttuna sem framundan er í Lengjudeildinni næsta sumar.

Skötuveisla í Hamri á Þorláksmessu

Enn eru nokkur sæti laus í skötuveisluna. Skráning fer fram með því að senda nafn á thorfotbolti2024@gmail.com - Greitt á staðnum.

Jólamót í Boganum

Árlegt jólafótboltamót Þórs verður á sínum stað í Boganum milli jóla og nýárs. Fjöldi liða hefur skráð sig til leiks og við hvetjum Þórsara til að fjölmenna í Bogann þann 29.desember og fylgjast með glæsitilþrifum í góðri stemningu.

Áfram Þór!