Fjölmenni og spenna í Glerárskóla um helgina

Daníel Andri Halldórsson, yfirþjálfari yngri flokka körfuknattleiksdeildar skrifar: 

Tveir leikir fóru fram í Glerárskóla um helgina. Á laugardeginum tóku strákarnir í 11. flokki á móti ríkjandi Íslandsmeisturum ÍR. Fyrri leikur liðanna sem fór fram í Breiðholtinu var gríðarlega spennandi þar sem ÍR-ingar stálu leiknum á síðustu mínútunum. Leikurinn á laugardaginn var ekki frábrugðinn fyrri leiknum en liðin skiptust á því að leiða alveg þar til á síðustu mínútunni. Staðan var 84-84 og innan við mínúta eftir þegar Þórsarar töpuðu boltanum klaufalega í tvígang og ÍR tryggði sér sjö stiga sigur með því að refsa fyrir mistök okkar manna.

Á sunnudegi komu Haukar í heimsókn í 9. flokki drengja. Íþróttahús Glerárskóla var smekkfullt af krökkum úr yngri og eldri flokkum og aðstandendum heima- og útiliðs þannig það voru mikil læti í húsinu. Þórsarar byrjuðu leikinn mun betur og leiddu í hálfleik með átta stigum. Haukar mættu hins vegar aðeins tilbúnari en Þórsarar og náðu að jafna leikinn á ný í þriðja leikhluta. Í fjórða og síðasta leikhluta leiksins skiptust liðin á höggum en að lokum báru Haukar sigur af hólmi með einu stigi, lokatölur 47-48.