Góð byrjun hjá 2. og 3.flokki í Íslandsmóti

Strákarnir í 3.flokki
Strákarnir í 3.flokki

Elstu yngri flokkarnir hófu leik á Íslandsmótinu í knattspyrnu um helgina þegar 2.flokkur karla, 3.flokkur kvenna og 3.flokkur karla léku sína fyrstu leiki. Leikið er í lotukerfi í A-liðum í  þessum flokkum og vinna lið sig upp um deildir á milli lotna en Íslandsmótinu mun ljúka í byrjun októbermánaðar í þessum flokkum.

2.flokkur karla hefur keppni í B-deild og hóf leik með glæsibrag þegar strákarnir fengu Gróttu í heimsókn í Bogann í gær. Þórsliðið hafði mikla yfirburði frá upphafi til enda og vann leikinn með sjö mörkum gegn engu. Smelltu hér til að skoða leikskýrsluna úr leiknum.

3.flokkur kvenna er ríkjandi Íslandsmeistari og leikur í A-deild. Hófu þær titilvörnina af miklum krafti og unnu 6-1 sigur á HK þegar liðin áttust við á KA-velli í gær en líkt og undanfarin ár er samstarf milli Þórs og KA í 3.flokki kvenna. Smelltu hér til að skoða leikskýrsluna úr leiknum. 

3.flokkur karla leikur einnig í A-deild og hóf keppni með tveggja leikja suðurferð sem er alltaf krefjandi enda stutt á milli leikja þar sem leikið var seinnipart laugardags og snemma á sunnudegi. Fyrri leikurinn var gegn Fram og lauk honum með 1-1 jafntefli. Sömu tölur urðu niðurstaðan daginn eftir þegar strákarnir léku gegn nýkrýndum Reykjavíkurmeisturum Víkings. Smelltu hér til að skoða mótið hjá 3.flokki karla.

Þessi lið eru nú komin á fullt með sitt mót og spila aftur um næstu helgi.