Handboltahelgin 9.-11. maí 2025

Síðasliðna helgi, 9. til 11. maí héldu KA og Þór saman handboltamót fyrir 6.flokk karla og kvenna yngra ár. Alls voru 390 iðkendur sem sóttu mótið. 39 karla lið og 24 kvenna lið frá 14 félögum. Þetta var 5. mót og síðasta mót vetrarins sem telja til Íslandsmeistaratitils.

Mót af þessari stærð er mikilvægur hluti af fjáröflun Þórs og KA.

Grótta/KR sigraði 1.deildina og fagnaði einnig Íslandsmeistaratittlinum í leiðinni

Skipulagning, undirbúningur og uppseting móts ásamt foreldravöktum er að mestum hluta unnin af sjálfboðaliðum. Foreldravaktir eru mikilvægur hluti mótsins en tæplega 80 vaktir voru mannaðar af foreldrum og unglingaráðum félaganna.

Mótið í held sinni tókst vel og iðkendur voru til fyrirmyndar. Keppt var á fjórum völlum, tveimur í KA heimilinu og tveimur í Íþróttahöllinni, alls 130 leikir. Við hvern leik starfa að meðaltali 2 dómarar og 2 tímaverðir.

Stjarnan varð Íslandsmeistari í 6.fl kvenna yngra ár og í 2. sæti í 1.deildinni og Fram sigraði 1.deildina.

Við viljum þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem lögðu sitt af mörkum um helgina. Ómetanleg vinna þeirra gerir það að verkum að mót sem þessi heppnast eins vel og raun bar vitni með þetta mót.

Flest liðin komu í bæinn á föstudaginn, gist var í Lundarskóla, Glerárskóla og Giljaskóla. Morgunmatur framreiddur í öllum skólunum og hádegismatur og kvöldmatur í Lundarskóla. Kvöldvaka var haldin í KA heimilinu á laugardagskvöldið. Þar var boðið uppá alls konar þrautir sem liðin skráðu sig í s.s stangarskot, bóndagöngu, pokahlaup og kappát. Stjórnandi kvöldvökunnar var Jónatan Magnússon (Jonni). Eftir leiki á laugardag fóru flest liðin í sund og komu við í Ísgerðinni en þátttöku fylgdi sundferð og ís.

Takk fyrir frábæra handboltahelgi.