Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Heiðursviðurkenningar Fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar voru afhendar sex öflugum einstaklingum fyrir vel unnin störf í þágu félags-, íþrótta- og æskulýðsmála á Akureyri á verðlaunahátíð ÍBA á dögunum. Þar á meðal var Þórsarinn Jórunn Eydís Jóhannesdóttir.
Hér á eftir fer umsögn ÍBA
Jórunn Eydís Jóhannesdóttir er ein þeirra fjölmörgu félaga, sem allt frá barnsaldri hefur lagt félagi sínu lið með ýmiskonar hætti, svo sem iðkandi íþrótta, síðar fótboltamamma og eiginkona þjálfara, en umfram allt SJÁLFBOÐALIÐI í bestu gæðum. Jórunn stundaði helst knattspyrnu og á að baki 55 meistaraflokksleiki fyrst með Þór og síðar ÍBA í 1. deild og bikarkeppni KSÍ.
Um Jórunni, sem sjálfboðaliða Þórs væri hægt að skrifa svo mikið að efni væri í góða bók. Síðustu áratugi hefur hún verið afkastamikil í starfi unglinga- og foreldraráðum og haldið utanum sitt fólk og ekki síður hlúð að keppendum sem koma utan af landi til keppni við Þór.
Þar hefur Jórunn verið betri en enginn og þær veitingar sem hún og hennar samstarfsfólk hafa borið á borð heimamönnum sem og gestum til handa af einstakri alúð.
Jórunn hefur í áraraðir verið virk í starfi kvennaknattspyrnuliðs okkar Þór/KA og þar eru handtökin hennar mörg. Hún sat m.a. í stjórn í nokkur ár, hún gengur í öll störf og er ótrúlega drífandi og á einkar auðvelt með að smita út frá sér dugnað og metnað í hverju starfi fyrir félagið, það er gott að vinna með henni.
Fá eru Pollamót Þórs sem Jórunn hefur ekki komið að, bæði í fótbolta og körfubolta og svo er nú komið að Pollamót Þórs væri vart hægt að hugsa sér án Jórunnar. Jórunn er einnig alger lykilmanneskja í skipulagningu þegar kemur að Herrakvöldi Þórs sem haldið er á hverju ári. Svo ekki sé nú talað um aðrar ýmsar uppákomur félagsins , alltaf er Jórunn til í slaginn fyrir félagið og er sannarlega sjálfboðaliði með stórum staf.
Fyrir störf sín í þágu íþrótta og félagsins í heild sinni var Jórunni veitt silfurmerki Þórs á 100 ára afmæli félagsins árið 2015 og árið 2019 var hún sæmd gullmerki Þórs á viðburðinum, “Við áramót”
Jórunn kom inn í aðalstjórn Þórs í apríl 2025.
Íþróttalífið á Akureyri á bara eina Jórunni og það er mikil gæfa Þórs að hafa hana innan sinna raða.