Heiðursviðurkenning ÍBA - Rúnar Steingrímsson

Rúnar Steingrímsson.
Rúnar Steingrímsson.

Heiðursviðurkenningar Fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar voru afhendar sex öflugum einstaklingum fyrir vel unnin störf í þágu félags-, íþrótta- og æskulýðsmála á Akureyri á verðlaunahátíð ÍBA á dögunum. Þar á meðal var Þórsarinn Rúnar Steingrímsson.

Hér á eftir fer umsögn ÍBA
Rúnar Steingrímsson knattspyrnumaður, handboltamaður, dómari, Þórsari og sjálfboðaliði

Rúnar Steingrímsson þarf vart að kynna fyrir nokkrum manni, sem komið hefur að íþróttum síðustu áratugina. Rúnar stundaði bæði fótbolta og handbolta á sínum yngri árum og fór alla leið upp í meistaraflokk í þeim báðum en vegna þrálátra meiðsla neyddist hann til að leggja keppnisskóna á hilluna. Rúnar fór ekki langt frá knattspyrnunni eftir meiðslin því hann reimaði á sig takkaskó, sem hentuðu dómara og hengdi dómaraflautu um háls sér og hóf farsælan feril, sem knattspyrnudómari og var þar um langt skeið í fremstu röð. Það þótti honum afbragðsleið til að halda tengslum við íþróttina og vera í góðum félagsskap.

Rúnar hefur verið og er enn afar dugmikill í félagsmálum hjá Þór og síðast enn ekki síst afar öflugur sjálfboðaliði. Hefur til fjölda ára sinnt hlutverki, sem gæslumaður á knattspyrnu- og körfuboltaleikjum. Á körfuboltaleikjum er hann hluti af stóru og kraftmiklu gengi, sem sér um að umgjörð og frágangur fyrir og eftir körfuboltaleiki þar er séð til þess að allt sé upp á 10. Þá hefur hann í áraraðir verið hluti af hópi fólks, sem keyrir körfuboltaliðin og knattspyrnuliðin okkar í útileiki.

Þegar kemur að vinnuverkefnum hvers konar þá er Rúnar fyrstur til að mæta en hann fer alls ekki fyrstur heim svo mikið er víst. Rúnar er góð fyrirmynd hinna fjölmörgu sjálfboðaliða og hvatning allra, sem vilja leggja sitt af mörkum við að gera sínu félagi vel og um leið samfélaginu öllu. Hann er ómetanlegur fyrir sitt félag.

Rúnari hefur verið veitt silfur og gullmerki Þórs, árið 2010 var honum veitt silfurmerki KSÍ.

Rúnar var kjörinn Heiðursfélagi í Þór á 110 ára afmæli Þórs þann 6. júní síðastliðinn.