Íþróttafólk Þórs og fjöldi tilnefninga 1990-2023

Senn líður að því að kjöri íþróttafólks Þórs verði lýst. Heimasíðan hitar örlítið upp fyrir viðburðinn með því að líta í baksýnisspegilinn.

Val á íþróttafólki Þórs fer þannig fram í dag að stjórnum deildanna er gefinn kostur á að senda inn tvær tilnefningar, einn karl og eina konu, ásamt umsögn með yfirliti um helstu afrek á árinu og ástæður þess að viðkomandi er tilnefnd(ur) í kjörinu á íþróttafólki Þórs. Aðalstjórn Þórs fer yfir innsendar upplýsingar og var sú leið farin í ár að bjóða formönnum deilda að mæta á fund aðalstjórnar til að upplýsa nánar um viðkomandi einstakling og svara spurningum. Að því búnu greiðir aðalstjórn atkvæði og raðar þeim sem tilnefnd eru í röð og eru stig gefin og reiknuð út frá því. 

Áður en kemur að því að heimasíðan kynni það fólk sem deildirnar tilnefndu verður farið í smá upprifjun. Á fyrstu myndinni hér að neðan má sjá hvaða fólk varð fyrir valinu sem íþróttafólk frá árinu 1990, sem var í fyrsta sinn sem kjörið fór fram með breyttu sniði og að frumkvæði Ragnars Sverrissonar, kaupmanns í JMJ, sem jafnframt gaf verðlaunagrip og hefur gert æ síðan.

Þar fyrir neðan er listi með nöfnum íþróttafólks Þórs, raðað eftir því hve oft hver einstaklingur hefur hlotið þennan titil. Þar trónir knattspyrnukonan Arna Sif Ásgrímsdóttir á toppnum, en hún hefur fimm sinnum verið kjörin, auk þess að eitt árið var hún einnig kjörin íþróttakona Akureyrar. Tveir karlar koma á eftir Örnu Sif, þeir Hlynur Birgisson og Tryggvi Snær Hlinason, en báðir hafa verið valdir þrisvar sinnum. 

Fimm einstaklingar sem hlotið hafa nafnbótina hafa síðan í framhaldinu einnig verið valdir sem íþróttamaður, íþróttakarl eða íþróttakona Akureyrar fyrir það sama ár. Það eru Rut Sigurðardóttir (taekwondo, 2003), Rakel Hönnudóttir (knattspyrna, 2008), Arna Sif Ásgrímsdóttir (knattspyrna, 2012), Stephany Mayor (knattspyrna, 2017) og Tryggvi Snær Hlinason (körfuknattleikur, 2017).

Alls hafa 28 einstaklingar hlotið þann heiður að vera valdir íþróttamaður (1990-2013), íþróttakarl (2014-) eða íþróttakona (2014-).