Knattspyrna: Þór/KA vann Tindastól

Þór/KA sigraði Tindastól í kvennadeild Kjarnafæðismótsins í dag, 4-0, og fór upp að hlið Þór/KA2 á toppi deildarinnar. Bæði lið eru með níu stig og mætast í lokaleik deildarinnar.

Aðeins eitt mark leit dagsins ljós í fyrri hálfleiknum, þegar Sandra María Jessen skoraði á 14. mínútu. Þór/KA bætti síðan við þremur mörkum í þeim seinni og vann leikinn örugglega. Mörkin hefðu raunar getað orðið mun fleiri, en fjögur dugðu.

Tindastóll - Þór/KA 0-4 (0-1)

  • 0-1 Sandra María Jessen (14').
  • 0-2 Agnes Birta Stefánsdóttir (57').
  • 0-3 Margrét Árnadóttir (67').
  • 0-4 Sjálfsmark mótherja (81').

Með sigrinum í dag er Þór/KA komið í níu stig úr þremur leikjum, eins og Þór/KA2, en eini leikurinn sem eftir er í mótinu er innbyrðis viðureign Þór/KA-liðanna. Þór/KA2 er með markatöluna 16-4, en Þór/KA með 17-0. Áformað er að innbyrðis leikurinn verði spilaður á KA-vellinum þriðjudaginn 30. janúar kl. 18. Úrslit leikja og stöðu í deildinni má sjá á vef KDN.

Næst

  • Mót: Kjarnafæðimótið kvennadeild
  • Leikur: Þór/KA - Þór/KA2
  • Staður: KA-völlur
  • Dagur: Þriðjudagur 30. janúar
  • Tími: 18:00