Körfubolti: Útileikur í Njarðvík í kvöld

Keppni í Subway-deild kvenna í körfubolta er hafin aftur eftir jólafrí. Þór mætir Njarðvík á útivelli í kvöld.

Því miður hefur fækkað í Subway-deildinni því þær fréttir bárust skömmu fyrir jól að Breiðablik hefði dregið lið sitt úr keppni. Leikir gegn Breiðabliki þurrkast því út og stöðutaflan ber keim af því, liðin teljast því hafa spilað 11-12 leiki áður en 13. umferð mótsins hófst í gær.

Njarðvíkingar sitja í 3. sætinu með átta sigra í 11 leikjum, en Þór í 5. sæti með sjö sigra í 12 leikjum. Liðin mættust á Akureyri í október og höfðu Njarðvíkingar þá betur, unnu með 13 stiga mun. 

Leikurinn var upphaflega á dagskrá í gær, þriðjudaginn 2. janúar, en bæði lið voru sammála um að skynsamlegra væri að spila í kvöld. Leikurinn átti að vera í beinni á Stöð 2 sport í gær, en er ekki á dagskránni í kvöld. Heimasíðunni er ekki kunnugt um hvort Njarðvíkingar streyma leikjum sínum.