Lokaumferðin í Grill 66 deildinni í kvöld

Þórsarar fá ungmennalið Vals í heimsókn í Höllina í kvöld. Leikurinn hefst kl. 19:30.

Eins og áður hefur komið fram breyta úrslit leiksins í kvöld engu varðandi framhaldið þar sem aðeins fimm lið í deildinni eru ekki ungmennalið og fjögur þeirra munu spila um laust sæti í Olísdeildinni á næsta tímabili. HK fer beint upp, en eftir páska verður úrslitakeppni hinna fjögurra um lausa sætið. Þar er þegar ljóst að Víkingar (2) mæta Kórdrengjum (10) og Fjölnir (3) mætir Þór (9), en liðin sem talin eru upp á undan eiga þá heimaleik ef kemur til oddaleiks. Þórsarar geta reyndar náð 8. sætinu með sigri í kvöld, ef ungmennalið Fram tapar sínum leik.

Eins og ávallt verður hægt að næra sig á borgara og drykk fyrir leikinn í kvöld, en Þórsurum er einnig bent á að fyrir handboltaleikinn verður þriðji leikur Þórs og Snæfells í undanúrslitum 1. deildar kvenna í körfubolta. Sá leikur hefst kl. 17:00.

Það er því upplagt að taka tvo leiki og engin þörf á að fara heim að borða fyrir leik eða á milli leikja. Grillararnir og sjoppufólkið sér um þær þarfir.

Báðir þessir leikir verða í streymi á Þór TV.