Rífandi stemning og fyrsti sigur Þórs í Subway

Oft var hart barist um boltann í leiknum í kvöld. Hér er Eva Wium Elíasdóttir sem reynir að halda bo…
Oft var hart barist um boltann í leiknum í kvöld. Hér er Eva Wium Elíasdóttir sem reynir að halda boltanum, en nokkrar Stjörnukonur vilja ólmar ná honum af henni. Maddie Sutton og Lore Devos fylgjast með. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Það var hátíð í bæ, kátt í Höllinni og frábær stemning í stúkunni þegar Þór tók á móti Stjörnunni í fyrstu umferð Subway-deildar kvenna í körfubolta í kvöld. Níu stiga sigur varð niðurstaðan og fyrsti sigur Þórs í Subway-deildinni í höfn. Áreiðanlega ekki sá síðasti miðað við stemninguna í stúkunni og innan liðsins.

Þórsliðið mætti til leiks af meiri krafti, með meira sjálfstraust og sterkari taugar en leikmenn Stjörnunnar. Báðum liðum gekk reyndar brösuglega að hitta í körfurnar á upphafsmínútunum enda fyrsti leikur í móti, mögulega hægt að tala um haustbrag og enn verið að slípa saman liðin með nýjum erlendum og innlendum leikmönnum.

Lore Devos skoraði fyrstu stig Þórsara í Subway-deildinni í þessum sögulega leik og stigin eiga klárlega eftir að verða mun fleiri, bæði hjá henni og Þórsliðinu. Sigrarnir líka.

Eftir brösuga byrjun voru það Þórsarar sem hrukku fyrr í gang, skoruðu sjö stig í röð og breyttu stöðunni úr 4-4 í 11-4 og svo 14-6 þegar fyrsta leikhluta lauk. Skotnýting gestanna afar slök í upphafi og reyndar í heildina í leiknum þó þær hafi náð sér betur á strik þegar á leið. Dyggilega studdar af hátt í 200 manns í stúkunni héldu heimakonur svo áfram að auka forskotið í öðrum leikhluta, munurinn mest 21 stig þegar leið á annan leikhluta, en undir lok fyrri hálfleiks og í byrjun þess seinni hófu gestirnir að saxa á forskotið.

Taugatrekkjandi áhlaup

Það fór um heimafólk þegar munurinn var kominn í fimm stig í lok þriðja leikhluta og minnkaði enn í upphafi fjórða. Gestirnir náðu svo loks að jafna leikinn í 54-54 um miðjan fjórða leikhluta og fengu nokkur tækifæri til að komast yfir, en náðu ekki að nýta þau. Munurinn var tvö til fjögur stig á lokamínútunum, en stigahæsti leikmaður Þórs, Hrefna Ottósdóttir, setti mikilvægan þrist þegar 1:32 mínútur voru eftir og forskotið orðið sex stig. Annar þristur á lokasekúndunum sneri svo hnífnum í sárinu og munurinn níu stig þegar upp var staðið.

Atkvæðamestar í Þórsliðinu voru Hrefna Ottósdóttir, Lore Devos og Maddie Sutton. Hrefna var stigahæst með 17 stig, Lore skoraði 16 og tók tíu fráköst, Maddie skoraði 13 og var öflug í fráköstunum eins og alltaf, tók alls 21 frákast, þar af 19 í vörninni. Hún var framlagshæst í liðinu með 29 punkta, en Hrefna og Lore jafnar með 15.


Hrefna Ottósdóttir skoraði flest stig Þórsara, 17. Sex af stigum Hrefnu komu á síðustu 92 sekúndunum þegar Þórsliðið náði aftur að síga fram úr eftir að Stjarnan hafði jafnað leikinn. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór: Hrefna Ottósdóttir 17/5/2, Lore Devos 16/10/4, Maddie Sutton 13/21/4, Eva Wium Elíasdóttir 8/2/3, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 6/4/1, Jovanka Ljubetic 4/2/4, Heiða Hlín Björnsdóttir 3/6/4, Karen Lind Helgadóttir 0/2/0.

Stjarnan: Katrina Trzeciak 18/3/0, Denia Davis-Stewart 15/6/0, Kolbrún María Ármannsdóttir 11/7/1, Bára Björk Óladóttir 7/7/1, Ísold Sævarsdóttir 5/3/3, Elísabet Ólafsdóttir 2/0/0, Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir 0/1/0.

(14-6) ⧫ (19-13) ⧫ 33-19 ⧫ (17-26) ⧫ (17-13) ⧫ 67-58

Ýmislegt við tölfræðina er áhugavert við nánari skoðun, til að mynda að Þórsliðið er skráð með samtals 21 stoðsendingu, en Stjarnan aðeins sex. Þórsliðið sennileg að hlaupa og spila kerfin betur, en meira um einstaklingsframtak í sóknarleik Stjörnunnar. Skotnýting var slök hjá gestunum, 25%, en 38% hjá Þórsliðinu.

Í stuttu máli má segja að Þórsarar hafi haft yfirhöndina í fráköstum og með betri skotnýtingu, en gáfu á móti of mörg færi á sér með töpuðum boltum. Þórsliðið tók alls 54 fráköst á móti 37 fráköstum gestanna, þar af voru 15 fleiri varnarfráköst. Tapaðir boltar voru hins vegar 22 á móti 12 hjá Stjörnunni.

Stemningin í Höllinni skilaði svo aukakrafti þegar á þurfti að halda eins og alltaf þegar Þórsliðið spilar.


Björn Halldór Sveinsson #4: „Stattu upp, Heiða Hlín. Ég er að sópa hérna!“ Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Ryðgaðar en munu slípast

Frumraun Þórsara og fyrsti leikur liðsins í efstu deild kvenna í 45 ár lofar góðu. Áhugaverðir leikmenn hafa bæst í hópinn, breiddin orðin meiri en í fyrra og liðið á klárlega eftir að sýna góða takta og betri leiki þegar það slípast betur saman með tímanum. Liðið nær alltaf að skemmta áhorfendum og hækka púlsinn í stúkunni.

Næst:

  • Deild: Subway-deildin
  • Leikur: Fjölnir - Þór
  • Staður: Dalhús
  • Dagur: Þriðjudagur 2. október
  • Tími: 19:15