Sandra María valin í A-landsliðið

Sandra María í leik með Þór/KA gegn Keflavík í júní 2022. Mynd: Þórir Tryggva.
Sandra María í leik með Þór/KA gegn Keflavík í júní 2022. Mynd: Þórir Tryggva.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari A-landsliðs kvenna, tilkynnti landsliðshópinn fyrir tvo æfingaleiki liðsins í Apríl. Sandra María Jessen er aftur komin inn í hópinn.

Sandra María hefur sannarlega og verðskuldað vakið athygli núna á undirbúningstímabilinu þar sem hún hefur raðað inn mörkum í leikjum Þórs/KA í Kjarnafæðismótinu og Lengjubikarnum. Hún kom í fyrsta skipti inn á í leik í byrjun mars 2022 eftir barnseignarfrí og hefur á þessum tíma komið sér aftur í frábært form og það skilar sér núna í sæti í landsliðinu fyrir æfingaleiki liðsins gegn Nýja-Sjálandi og Sviss í apríl.

„Það er klárlega búið að vera markmiðið mitt frá því að ég átti Ellu að vinna mér aftur inn möguleika með landsliðinu. Ég hef unnið mjög markvisst að því, ég hef fengið aðstoð frá mörgum, maður er alltaf umkringdur góðu fólki sem er tilbúið að aðstoða. Síðan hef ég lagt rosalega mikla vinnu í þetta og er bara stolt af þeirri vegferð sem ég er á. Að sjálfsögðu er ég enn að taka skref fram á við eftir að ég átti Ellu og held að ég sé komin á nokkuð góðan stað núna og er bara sátt með hvernig hlutirnir eru að ganga og þá er gaman að vera verðlaunuð með landsliðssæti," segir Sandra María í viðtali á vef Þórs/KA. Hún kveðst afar stolt yfir því hvernig henni hefur gengið að komast aftur í form. „Á sama tíma er þetta góð viðurkenning fyrir Þór/KA, þar sem við erum greinilega að gera góða hluti. Það er ekki bara mitt að ég hafi náð þessum áfanga og fái þetta tækifæri með landsliðinu heldur er þetta áfangi sem liðið sem heild er að ná þar sem við erum á mjög góðum stað og ég væri ekki á þeim stað sem ég er á í dag nema af því að liðið og umgjörðin í liðið er svona góð."

Nánar er rætt við Söndru Maríu í frétt á thorka.is.