Þór/KA sigraði Val í Lengjubikarnum

Þór/KA vann þriðja leikinn í röð í A-deild Lengjubikarsins þegar þær mættu Val í Boganum í gær.

Þór/KA komst yfir með marki Söndru Maríu Jessen á 9. mínútu. Um miðbik fyrri hálfleiksins komu fjögur mörk á um átta mínútna kafla. Sandra María kom Þór/KA í 2-0 á 27. mínútu. Skömmu síðar minnkaði Bryndís Arna Níelsdóttir muninn fyrir Val, en Amalía Árnadóttir kom Þór/KA í 3-1 og Sandra María kláraði þrennuna þegar hún skoraði fjórða mark Þórs/KA á 35. mínútu. Staðan 4-1 í leikhléi. Valur náði svo að bæta við tveimur mörkum í seinni hálfleik, en lengra fengur þær ekki að komast og úrslitin 4-3.

Þetta var þriðji leikurinn hjá Þór/KA í Lengjubikarnum og þriðji sigurinn. Liðið hefur því níu stig, eins og Þróttur, en þessi lið mætast syðra föstudaginn 10. mars kl. 19.

Nánar á thorka.is.

Þór/KA - Valur 4-3 (4-1)
9. mínúta: 1-0 - Sandra María Jessen - Stoðsending: Una Móeiður Hlynsdóttir
27. mínúta: 2-0 - Sandra María Jessen
29. mínúta: 2-1 - Bryndís Arna Níelsdóttir - Stoðsending: Ásdís Karen Halldórsdóttir
31. mínúta: 3-1 - Amalía Árnadóttir - Stoðsending: Una Móeiður Hlynsdóttir
35. mínúta: 4-1 - Sandra María Jessen - Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir
73. mínúta: 4-2 - Sjálfsmark
85. mínúta: 4-3 - Ásdís Karen Halldórsdóttir (v)

Myndband með mörkum og fleiru.